Grunnbrennslan

Grunnbrennsluhraði (basal metabolic rate (BMR)) er sú orkuþörf sem líkaminn þarf til að lifa af án þess að hreyfa legg né lið. Mætti segja sá fjöldi af hitaeiningum sem þyrfti að dæla í skrokkinn meðan við liggjum í dauðadái. Grunnbrennsluhraði er yfirleitt mældur meðan líkaminn er í hvíldarástandi en samt vakandi og 12 tímum eftir síðustu máltíð. Sem þýðir að það er best um leið og þú vaknar en áður en morgunmatur er slafraður.

Það má líka áætla grunnbrennslu út frá nokkrum lykilbreytum: Aldri, kyni, hæð, þyngd og fitufríum massa eða vöðvamassa sem er gríðarmikilvæg breyta í þessu ferli öllu saman.

Grunnbrennsla er ekki stöðug heldur breytileg, en ekki eins og íslensk veðrátta samt.

Hinir ýmsu þættir hafa áhrif á grunnbrennsluhraðann.

 

Svefn: Þegar við sofum er meiri virkni í vöðvum en þegar við erum vakandi og afslöppuð. Á næturnar er viðgerðarferlið nefnilega í bullandi gangi.

Vöðvar: Því meiri vöðvamassi því hærri grunnbrennsla. Það er vegna þess að vöðvavefur er mun virkari vefur en fituvefur. Hann krefst því meiri orku sem aftur hækkar grunnbrennsluna. Og hvað byggir kjöt á grindina? Nú auðvitað járnrífingar!

 

Þjálfun: Járnrífingar hækka grunnbrennsluhraðinn og því meiri ákefð því meira þýtur kvikindið upp. Þolæfingar keyra hann upp aðeins að agnarlitlu leyti og gott þol hefur lítið að segja fyrir hærri grunnbrennsluhraða miðað við fitufrían massa. Þess vegna er ráðlegt að setja í forgang að rífa í járn eins og berserkar til að setja hana í fimmta gír.

 

Aldur: Unglömbin hafa hærri grunnbrennsluhraða en ellismellirnir. Eftir því sem við eldumst þá hægist á maskínunni um tíu prósent á hverjum áratug, sem þýðir eitt prósent á ári. Til að bæta ekki á sig óþarfa fitu með aldrinum vegna hægari grunnbrennslu þarf því annaðhvort að minnka magn matarins í eða rífa í járn til að auka vöðvamassa og keyra upp grunnbrennsluna. Naglinn kýs hið síðarnefnda.

 

Líkamsbygging: Flatarmál líkamans, ekki þyngd. Sá sem er 90 kg og 1,90 á hæð hefur hærri grunnbrennslu en maður sem er 1,70 og 90 kg. Sá sem er hærri losar út meiri varma í gegnum stærra flatarmál húðar en sá sem minni er.

 

Kyn: Karlmenn hafa hraðari grunnbrennslu en konur. Ekki sanngjarnt en þannig er það…. Oftar en ekki hafa þeir stærra flatarmál en við skonsurnar, meiri vöðvamassa og auðvitað öðruvísi hormónabúskapur.

 

Melting: Þegar við borðum hefur það áhrif á grunnbrennsluhraða. Meltingarferli, vökvaflæði og fleira hækkar grunnbrennsluna og því er ráðlegt að gúlla marga litla snæðinga yfir daginn.

 

Megrun: Föstuástand eða langvarandi tímabil þar sem fárra hitaeininga er neytt lækkar grunnbrennsluna.

Þegar vöðvar rýrna hægist á grunnbrennslunni. Þeir sem fara í skyndimegrun hægja á grunnbrennslunni vegna þess að vöðvarnir rýrna. Það hægist hins vegar ekki á grunnbrennslu við að missa fitu eingöngu. Þeir eiga því miklu auðveldara með að bæta á sig eftir megrunina en fyrir. Þeir sem fara í skyndimegrun uppskera því ekkert annað en hlandblautan skó, svekkta grunnbrennslu og enn fleiri kiló seinna meir.

 

Það er semsagt fatalt að stunda eingöngu brennsluæfingar og kroppa eins og kjölturakki í snæðingana. Til að hækka grunnbrennsluna verðum við að refsa járninu, bygja upp vöðvamassa og borða nóg, oft, en lítið í einu.