Hvað er auðveldara en Hvernig

Splunkunýtt ár er mætt á svæðið, með 12 mánuði af nýjum möguleikum, 52 vikur af ónýttum tækifærum, 365 daga af  nýju upphafi.

Hver hræða á byggðu bóli básúnar mannbætandi áramótaheit í statusum og tísti. Tvöþúsundogþrettán skal vera árið sem aukakílóin hypja sig, armbeygjur á annarri og fimmtíu dauðar upphífingar með tíu kílómetra hlaup á kantinum.

Það vantar yfirleitt ekki yfirlýsingar um HVAРfólk vill.
En vindurinn er aldeilis úr loftbelgnum þegar kemur að HVERNIG.
Þetta er auðvitað sjokkerandi staðreynd, en lokaafurðin er ekki pöntuð uppúr Freeman’s.
Lítill póstdrengur kemur ekki færandi hendi með skrokk drauma þinna, aukinn styrk og þol pakkað í sellófan með bleikri slaufu.
Að gera þær breytingar á eigin hegðun sem þarf í verkefnið er í mörgum tilfellum eins og að draga blóð úr steini með saumnál og skýrir hvers vegna svona margir ná ekki sínum markmiðum.

Ef þú sinnir ekki HVERNIG þá muntu aldrei ná þessu HVAРsem þig langar í.

Að skuldbinda sig markmiði án þess að skuldbinda sig leiðinni þangað er tálsýn og kjaftæði.

 

New-year-resolution

 

Sófalega og sjónvarpsgláp mun ekki bæta í byssurnar, Kringluráp bætir ekki bekkinn og kaffihúsaseta tætir ekki upp þolið.

Ef þú fylgir ekki leiðinni að markmiðinu, sleppir æfingum og fylgir ekki mataræði þá geturðu ekki búist við draumaskrokknum.

Þú þarft að setja þér hegðunarmarkmið frekar en útkomumarkmið.  Að versla hollan mat, borða hreint fæði, mæta á allar æfingar vikunnar og så videre sem mun færa þig nær óskaútkomunni sem þú hefur galað yfir lýðinn.

En að ætla að vera fullkomin(n) á þessari leið er ávísun á brostnar væntingar og kramda drauma. Ekkert jarðneskt kvikindi getur verið 100% óbrigðult í neinu verkefni, þú getur alveg jarðað þá óskhyggju með viðhöfn enda færir slík firra ekkert annað en en sjálfsniðurrif við hrösun.

Við eigum frekar að læra á veikleika okkar og kunna að meðhöndla þá.

 

NewYearsResolution-cat

Færðu svínaflensu við tilhugsunina um að hlaupa og þarft að draga þig með töngum á æfingu?
Þurrkaðu tárin og skelltu þér í spinning, Tabata, Cross-Fit, box, skvass… með úrval-útsýn af hreyfingu nú til dags er engin ástæða til að væta koddann í kvöl og pínu.

Veistu innst í myrkustu afkimum heilans að þegar þú færð þér kók kemur upp pervertísk löngun í Dorito’s sem þú ræður illa við?

Það er vegna þess að þú hefur parað þessa tvo hluti saman í gegnum tíðina, Halló! klassísk skilyrðing.

Lausnin er svo kristalskýr að Skinner og allir hinir atferlisfræðingar snúa sér við í gröfinni– það þarf ekki kjarnorkufræðing til að reikna út að ef þú sleppir kókinu snarminnkarðu líkurnar á að Doritosið endi í skoltinum.

Við eigum samt ekki að sitja með kökkinn í kokinu að slafra í okkur þurrum túnfiski á þriðjudegi, þá erum við komin með sykurpúkann express í heimsendingu frá Domino’s.

Naglinn prédikar yfir lýðnum að reyna að halda sig á mottunni 90-95% tímans, rest getur farið í að hylla sukkguðinn. Honum þarf jú að sinna af og til greyinu, enda eiga boð og bönn og algjört fráhald heima á Litla-Hrauni, ekki í heilsusamlegum lífsstíl.

Mataræðið á að vera gómsætt og spennandi með máltíðum sem vekja hamingju í hjarta. Alheimsnetið er stútfullt af uppskriftum að hollu gómsæti til að fylla sálina af bjartsýni fyrir daginn og halda púkanum í skefjum yfir vikuna.

Ef þú hrærir saman hegðunarmarkmiðum við dass af sjálfsábyrgð, aðgerðir og félagslegan stuðning færðu út uppskrift að árangri.