Peppmeister 3000

Naglinn heyrir oft frasana ”Ég er ekki í gírnum núna, vantar spark í rassinn og pepp til að hundskast á beinu brautina.”
Þetta er atriði sem litla núðla Naglans nær ekki utan um. Það er ekkert utanaðkomandi sem mun koma rassinum á þér úr soranum og inná beinu brautina, aðeins þú getur fundið neistann til að truntast áfram í hollustunni.

Við erum okkar eigin ameríska klappstýra í handahlaupum með dúska í pífupilsi.
Okkar eigin Peppmeister 3000.

Það er algjörlega á eigin ábyrgð að sálga sykursjúka letipúkanum og leyfa hressa gæjanum í spandex gallanum að taka völdin í hjarnanum. Það getur enginn gert það fyrir þig, hvorki fjölskylda, vinir, kollegar eða þjálfarinn þinn. Þú stjórnar hugsunum þínum og þar með eigin hegðun.

Í þessu samhengi vill Naglinn deila með lesendum áhugaverðum pistli bandarískrar skonsu.
Sú tætti af sér um 60 kg og gjörsamlega umturnaði skrokk og lífsstíl til betri vegar.

Jenny Grothe fyrir

Jenny Grothe fyrir

Jenny Grothe í dag

Hún kemur skemmtilega inn á mikilvægasta þáttinn í hollustulífinu: viljastyrkinn/innri hvatningu (e. motivation).

Færslunni er hér snarað yfir á okkar ylhýra (með Naglískum slettum):

Þú hefur bara meiri viljastyrk en ég

Þetta er einn algengasti frasinn sem fólk segir við mig.
Eins og með því að gubba þessum orðum útúr sér geti viðkomandi afsakað sig að fara ekki í ræktina eða borða hollt.
Það er í sama flokki og “Þetta er svo auðvelt fyrir þig,” og “Ég hef bara ekki tíma”. (innsk. Naglinn: flokknum Ömurlegar afsakanir)

 

Þegar markmiði er náð, sem í mínu tilfelli var að missa meira en 50 kg, þá er fyndið að að fólk gleymir hvað ég þurfti að hafa mikið fyrir því að ná þessu markmiði.
Það gleymir að mörgum sinnum þurfti ég að draga sjálfa mig með töngum í ræktina.
Til dæmis í morgun langaði mig ekki að fara í ræktina. En ég fór.

Sjáðu til, ég veg og met alltaf áhættu á móti ágóða.
Áhættan að með því að sleppa einum degi í ræktinni breytist í tvo og svo þrjá er ekki þess virði að missa ágóðann af því að fara og njóta dags án samviskubits.

Um leið og ég var mætt á svæðið tók ræktar-alsælan fljótt yfir.

Og í staðinn fyrir að rífa sjálfa mig niður fyrir að hafa ekki farið, gat ég notið dagsins.

Þegar ég var 117 kg hafði ég ekki meiri viljastyrk en nokkur annar. Fólk með viljastyrk verður ekki 117 kg, allavega ekki kona sem er 1.65 m á hæð.

Mig langaði ekki að fara þangað sem allir voru flottir og í formi meðan spikið lafði yfir jogging buxurnar á mér.

Kjúklingabringa hvetur mig ekki áfram. En þarf maturinn minn að vera hvatning fyrir mig? Og á þeim nótum, þarf ræktin að vera mér hvatning?

Ég er ALDREI með neina innri hvatningu til að skúra eldhúsgólfið, en ég geri það samt.

Ef ég myndi bíða eftir hvatningu til að þrífa bílinn minn þá myndi ég ekki einu sinni vita hvernig hann væri á litinn.
Ef þú bíður eftir að hvatningin mæti á svæðið þá þarftu að bíða mjög lengi.
Ég fer í ræktina 6 daga vikunnar, hvort sem ég er mótiveruð til þess eða ekki.
Það er bara það sem ég geri.

Núna þegar ég er 60 kg og búin með fyrstu heimsókn mína í ræktina þar sem hvatningin var ekki í botni þá er ég ánægð að hafa farið.

Þó ég hafi ekki verið með neinn sérstakan viljastyrk til að fara.”

Naglinn segir: AMEN SYSTIR!! við þessum orðum.

Við hollustumelirnir erum svo sannarlega ekki alltaf með hvatninguna í blússandi botni í brjáluðu stuði til að truntast í rækt og beygla fætur og bekka brjóst.

Það koma alveg dagar sem við viljum frekar liggja uppi í sófa að horfa á Dr. Phil.

Hvað þá að troða Eldsmiðju pizzu með rjómaosti í smettið á okkur frekar en að gúlla kjúllann.
En við einfaldlega gerum þessa hluti – af því þannig erum við bara – hollustan er orðin órjúfanlegur hluti af sjálfinu eftir mörg ár í að beita hugarleikfimi til að haldast á brautinni.

Ef þú leyfir þér að hugsa að aðrir sem hafa náð árangri hafi meiri viljastyrk en þú, ertu eingöngu að fóðra litla letihauginn í hausnum og gera hann sterkari í að drepa niður þinn árangur.

Maður þarf enga sérstaka hvatningu, pepp, spark í rassinn til að bursta tennur eða fara í sturtu, maður gerir það bara á sjálfstýringu.

Ætti ekki öll hollustuhegðun að vera þannig?