Skemmd brennsla

Áður varstu á bleikum skýjum í gúmmískóm með prógrammið þitt og allt gekk eins og í ástarsögu. En nú  er alveg sama hversu vel þú passar hverja kaloríu sem fer upp í skoltinn eða hversu mikið þú hamast, smjörið situr bara sem fastast á skottinu?

Það virðist ekkert virka á þig lengur, þú hefur prófað allt undir sólinni – kolvetni, lág-kolvetnakúr, engin kolvetni, fáar hitaeiningar, fitubrennslutöflur, endalausar þolæfingar – allt án árangurs. Lýsið haggast ekki.

Það er fátt meira frústrerandi en að hamast eins og rjúpan á símastaurnum án þess að sjá snefil af árangri, og auðvelt að tapa glórunni að garfa endalaust í hitaeiningum inn og út.

Hnífurinn í beljunni getur verið skemmt brennslukerfi. Þetta fyrirbæri er afleiðing margra ára megrunarkúra, þar sem hitaeininganeysla er undir grunnþörfum í langan tíma. Hljómar eins og dómsdagur, en er alls ekki eins hræðilegt og margir halda. Það eru ansi margir með sultarólina í innsta gati allan ársins hring spænandi óteljandi klukkustundir á brettinu, og því er þetta fyrirbæri mjög algengt.
Ef þetta á við þig, ertu ekki Palli einn í heiminum.

Skemmd brennsla er nefnilega ekki varanlegt ástand að eilífu Amen, og hún stöðvast aldrei alveg.
Hún myglar niður í lullandi hægagang en það er eðlilegt viðbragð við of fáum hitaeiningum.
Þegar líkaminn er í hitaeiningaþurrð í langan tíma eins og í megrun kemur fram lífeðlislegt viðbragð sem er arfleifð frá forfeðrum okkar og felst í að hormónin sem stjórna brennsluhraða, seddutilfinningu og fitutapi (m.a leptín og ghrelin) geyma líkamsfitu frekar en að plokka hana af.
Svona er líkaminn að bregðast við hungursneyð með að passa upp á spekið því það er langtímaforðinn hans. Mjög lág fituprósenta líkamans og langur tími í fitutapi margfaldar þessi áhrif og brennslukerfi dólar sér í fyrsta gír. Það skiptir ekki máli hversu skothelt næringarplanið er, ef við borðum of fáar hitaeiningar þá mun líkaminn aðlaga sig að því sem hann telur vera hallæri.

 

Hvað er til ráða?

Það er algjör óþarfi að skæla í koddann yfir kvöldlesningunni, það má nefnilega vel snúa þessari þróun við, því það er til mjög einföld leið til að hressa upp á slappa brennslu.

Þú þarft að borða meira. Jamm jamm, þú last rétt…borða MEIRA, ekki minna. Það er samt ekki ráðlegt að byrja allt í einu að gúffa í sig öllu sem ekki er niðurneglt. Auktu hitaeininganeyslu skref fyrir skref, t.d um c.a 10-20% á hverjum degi í átt að grunnþörf sem er sá fjöldi af karólínum sem þú þarft til að viðhalda þyngd.
Ágætis þumalputtaregla er að margfalda líkamsþyngd með 30-32 til að fá út viðhaldshitaeiningar.

Með þessu móti venjum við líkamann smám saman á að borða meira, sem kemur í veg fyrir að við bætum aftur á okkur fitu. Ráðlegt er að halda þessum hærri hitaeiningafjölda í nokkrar vikur og jafnvel lengur, eftir hversu löskuð aumingjans brennslan er orðin.
Þyngdin gæti aukist eitthvað á þessum tveim vikum, en það er líklega vökvasöfnun og vöðvaglýkógen sem fylgir auknum kolvetnum og hitaeiningum…. Engin ástæða til að missa svefn yfir því.

Eftir nokkrar vikur af aukinni hitaeininganeyslu ætti frekara fitutap að verða auðveldara því brennslukerfið ætti nú að vera endurræst, okkur líður betur og höfum meiri orku í æfingarnar og getum þar af leiðandi tekið betur á því. Það skilar sér í sterkari og stærri vöðvum og aukinni brennslu eftir æfingar.

 

Til þess að koma í veg fyrir að slík hörmung endurtaki sig er mikilvægt að tækla fitutapið með skynsemi að leiðarljósi í næstu atrennu.  Heilbrigður hitaeiningafjöldi fyrir fitutap með hóflegum þolæfingum er það eina sem blífar. Drastiskar aðgerðir skila engu nema veseni, tárum og hárreytingum.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s