Þessar lágkolvetna vefjur eru algjört dúndur. Sérstaklega fyrir þá sem álíta grænmeti og salat sem sóun á kaloríum. Ekki einasta blekkja þær neytandann til að borða haug af græmmó og salati, heldur eru þær barmafullar af næringu, gómsætheitum (er það orð?) og þú steingleymir að hér sé ekki sveittmeti og sukk, heldur úsandi hollusta að detta undir tönn.
Uppskrift
200g bókhveitinúðlur eða hrísgrjónanúðlur (fæst í Nettó)
300 g kjúklingalundir eða 2 bringur skornar í strimla
4 hvítlauksrif marin
1/2 rauðlaukur smátt skorinn
3 vorlaukar, smátt skornir
1 rifin gulrót
klípa salt og pipar
1/3 zucchini, skorið í litla teninga
1 tsk sesamfræ
2-3 stór romaine salatblöð
Aðferð:
Sjóða núðlur samkvæmt leiðbeingum á pakka. Sem er yfirleitt beisiklí að henda þeim í sjóðandi vatn og málið er dautt.
Á meðan það er að malla skal hlúa að Kalla kjúklingi og græmmóinu.
Hita 1 tsk olíu á stórri pönnu.
Bæta við kjúklingi, hvítlauk, lauk, salti og pipar og steikja þar til kjúllinn er eldaður.
Henda þá zucchini, rifinni gulrót og vorlauk á pönnuna og steikja í 4-5 mínútur þar til grænmetið er mjúkt.
Sataysósa
1 dl Himnesk hollusta hnetusmjör fínt
1 dl kókosmjólk light úr niðursuðudós
2 msk NOW erythritol
2 tsk sojasósa
safi úr einu lime
2 tsk sykurlaus sweet chili, fæst oft í asískum sérverslunum
Allt sett saman í pott og hitað þar til hnetusmjörið leysist upp og blandast saman við vökvann.
Gumsa núðlum og svo kjúklingablöndu ofan á salatblað. Sáldra sesamfræjum yfir, kreista smá limesafa og toppa svo gleðina með satay sósu.
Rúlla upp og dúndra í grímuna. En muna að njóta matarins með núvitund.
Það gerum við með að leggja frá okkur matinn eftir hvern bita. Krossleggja hendur og einbeita okkur að því einungis að tyggja matinn sem er uppi í okkur þá stundina. Velta fyrir sér áferðinni, bragðinu, kryddinu, lyktinni. Hlusta á hljóðið í brakandi salatinu undir tönn.
- Færslan er unnin í samstarfi við Icepharma og Nettó.