Brauð, brauð, brauð

Á níunda áratugnum þegar Naglinn sleit barnsskónum tróndi brauð á toppi fæðupýramídans.

Það var varla máltíð með mönnum nema að slæsa af hveiti væri annaðhvort í aðalhlutverki eða hvíldi slök á kantinum.

Normalbrauð með osti í eldhúsinu hjá ömmu.
Rúgbrauð með smjöri með mánudags ýsunni.
Samsölubrauð með rækjusmurosti í nesti í leikskólann
Brauð með osti og ananas í kvöldmat þegar múttan nennti ekki að elda.

Örbylgjuð sneið með skinku og osti og tómatsósu eftir skóla
Eða samloka með skinku og osti kramin í mínútugrilli.

Skjannahvít rúnstykki úr Sveinsbakarí á Grensásveginum um helgar.
Hörð að utan. Mjúk að innan. Með osti… og sultu… og meiri osti

Í frímínútum í grunnskóla var sjoppað hálft brauð og smurostur.
Væn lúka af hveitisulli rifin úr og dýft í smurost.

Það voru Sóma langlokur í hádeginu í Lærða Skólanum. Ristuð kjötloka með hakki og peppó. Og súperdós.

 

Þegar Naglinn fór í sína fyrstu einkaþjálfun undir lok tíunda áratugarins var brauð sett á bannlista.

Það var sonur Satans. Afkvæmi arfans. Dóttir djöfulsins.
Fitandi. Óhollusta. Ömurð. Hörmung.

Hveiti er óvinur ríkisins.
Ger er viðbjóður.

Alls ekki borða örðu af brauði.
Það fitar þig á hraða ljóssins á einni nóttu.

Við þessi skilaboð dó eitthvað innra með Naglanum því lífsförunautur var kvaddur með viðhöfn. Blóm og kransar í Gufunesi.

Naglinn hugsaði um brauð alla daga.
Langaði alltaf í brauð.
Öfundaði fólk sem “mátti” borða brauð.

Hnausþykk bóndabrauðsneið með osti sat í klámfengnum stellingum í hausnum.
Ilmurinn af nýbökuðu rúnstykki fyllti ímyndunaraflið.

Naglinn fór í margar vettvangsferðir í bakarí og skoðaði úrvalið.
Eins og lúsugur Óliver Twist sem hafði ekki efni á brauðhleif var mænt löngunaraugum á hveitihleifana sem ekki mátti borða.

Nema á laugardögum.
Þá var nammidagur og allt leyfilegt.
Undir þeim formerkjum að það væri einskonar svarthol þar sem líkaminn ferlar ekki kaloríur.

En þá voru stórkostleg átköst tekin á brauði og fleira af bannlistanum.

Sneið eftir sneið eftir sneið runnu niður hlunnfarið vélindað.
Íklæddar osti og sultu, smjöri, skinku, smurosti…. jafnvel bara naktar og eintómar.

Oft í einrúmi. Í felum.

Afleiðingarnar af þessu óhóflega bílífi voru bjúgur, sviti og slen langt fram eftir viku.

Sálin stútfull samviskubiti og sektarkennd
Mórall yfir stjórnleysi.
Sjálfshatur og niðurrif
Áhyggjur af þyngdaraukningu.

Jogginggallanum sportað fram á miðvikudag til að fela bjúgaða vömbina.

Óhófleg líkamsrækt stunduð til að brenna hinu hræðilega glúteini, kolvetnum, hveiti og öllu sem var dauðasynd að innbyrða.

Síðustu ár borðar Naglinn brauð 3-4x í viku.
Og mallinn er sáttur og segir stopp eftir eina til tvær sneiðar.

 

Líkaminn hefur það fínt.
Og er mun grennri en þegar það var bannað.
Meira fitt. Í betra formi.

Sálin er alltaf sátt því hún fær að hitta æskuvininn með reglulegu millibili

Brauð skiptir ekki máli lengur.
Brauð hefur ekkert vald.
Það er alltaf í boði.

Naglinn hefur ekki tekið átkast í mörg, mörg, mörg herrans ár.
Hvorki á brauði, sælgæti eða neinum matvælum.

Lykillinn að hugarró, jafnvægi og heilbrigðu sambandi við mat er að strika út bannlistana.

Því þeir valda ‘allt-eða-ekkert’ hugsununum.

Normalíseraðu normalbrauðið eða Nóa Kroppið.

Þá þarftu ekki að klára pokann þar til augun standa á stilkum og beljurnar koma heim.
Því þú getur slafrað hóflegt magn á morgun og hinn og hinn…..