Naglinn er alltaf að bæta og betrumbæta uppskriftir. Því oftar sem maður skellir í hverja dásemd því meira lærir maður… að vita meira í dag en í gær… er það ekki það sem lífið snýst um? Prótínpizza hefur vermt magaholið ansi oft uppá síðkastið enda Naglinn pizzumelur með meiru en þessi litla snúlla svalar þeirri þörf algjörlega og heldur öllum vanþurftarhugsunum langt úti í hafsauga á milli þess sem alvöru varíasjónin er gúlluð á restauröntum bæjarins.
Prótínpizza 2.0
1 skófla NOW pea protein (baunaprótín)
150 ml eggjahvítur
1 dl bókhveiti
2 msk Isola möndlumjólk
rósmarín, hvítlauksduft, basilíka og pizzakrydd frá Himnesk hollusta
Allt hráefnið fæst í Nettó
Aðferð: 1. Hræra öllu saman með sleikju. Deigið á að vera frekar þykkt. 2. Hella á sjóðandi heita og vel smurða pönnukökupönnu og nota sleifina til að dreifa vel úr deiginu. Lækka niður í miðlungshita. 3. Þegar orðin þurr á mallakút, snúa við á bakið og baka í gegn. Þá er botninn klár.
Toppa með tómatpúrru frá Himnesk hollusta og svo þeirri gleði sem áferðarperrinn í þér öskrar á þá stundina. Enda á rifnum osti og inn í ofn þar til osturinn bráðnar.
Sáldra svo hvítlauksolíu og chili olíu á kantinn til að dýfa í…. úff…sleftaumarnir eru byrjaðir að seytla út um munnvikin.