Elixírinn sjálfur

U.þ.b 70% kroppsins er vatn (sumir vilja reyndar meina að hann sé 90% vatn) og það treður sér í nánast öll störf sem fara fram inni í skrokknum.

Það er grátlegt að hugsa til þess að ansi margir sem byggja landið Ísa með eitt besta vatn á kúlunni gleymi þessum stórmikilvæga þætti í heilbrigði maskínunnar.

“Iss piss og pelamál, ég þarf ekkert að drekka meira vatn”…Ertu nú alveg viss??
Vatn skolar út aðskotaefnum, flytur næringarefni til frumna líkamans, viðheldur réttum líkamshita en líkaminn kælir sig með að losa vatn gegnum svita.

 

water

Mannskepnan getur lifað í nokkrar vikur án matar en aðeins í nokkra daga án vatns.
Daglega tapar líkaminn 2-3 lítrum af vatni frá húð, lungum og nýrum. Til þess að vinna upp þetta tap þarf að gúlla að lágmarki 8 stór glös af vatni á dag.
Kaffisötur, gosþamb og djússlurk vinnur ekki eins vel upp vökvatap líkamans og hreint vatn.

Vatn smyr liði og liðamót sem er mjög mikilvægt fyrir þá sem stunda íþróttir þar sem álag er á liði t.d hlauparar og lyftingafólk. Við endumst líka lengur á æfingu og erum ekki eins þreytt þegar líkaminn er vel vökvaður.
Hamagangsmelir og ræktarrottur þurfa að gúlpa í sig meira af vatni en Kyrrsetu Jóarnir því líkaminn getur tapað 1-2 kg af vatni í miklum átökum.
Missi skrokkurinn 2% eða meira af líkamsþyngd sinni af vatni hefur það hamlandi áhrif á hversu vel vöðvalufsurnar óperera á æfingu.
Hér koma niðurstöður rannsókna sem ættu að gera einhverja járnrífingameli hlandblauta af skömm og vonandi skokka fram í vask eftir lesturinn.

Rannsókn var gerð í háskóla í Virginíu (USA) þar sem 10 þjálfaðir karlmenn tóku hámarksþyngd (1-rep max) í bekkpressu bæði þegar þeir höfðu drukkið vel af vatni og í öðrum aðstæðum þar sem þeir höfðu drukkið lítið vatn.
Niðurstöðurnar sýndu að þyngdin sem þeir gátu tekið var marktækt minni þegar mennirnir höfðu drukkið of lítið vatn (Journal of Strength & Conditioning Research).

Í annarri rannsókn í háskólanum í Connecticut voru þjálfaðir karlmenn látnir gera sex-sett af hnébeygjum með 80% af hámarksþyngd (1rep-max) bæði eftir að hafa drukkið vel af vatni og einnig þegar þeir voru þyrstir.
Þátttakendur náðu ekki að klára eins mörg reps þegar þeir voru þyrstir.

Þorsti virðist þannig hindra kraft en einnig hefur hann áhrif á hormónastig í líkamanum.

 

image-80-tap-water
Rannsókn frá Chicago State háskóla sýndi að styrkur minnkaði um 15-20% þegar þátttakendur voru þyrstir og testósterón (uppbyggingarhormón) var lægra en kortisól (niðurrifshormón) var hærra.
Þið slóðarnir sem látið vatnsdrykkju sitja á hakanum, hættið að míga í skóinn ykkar á æfingu.
Svolgrið í ykkur til að geta rifið í járnið eins og berserkar.

 

Pissi pissi piss

Eðlilegur vatnsbúskapur stuðlar að eðlilegri blóðrás og nægt magn súrefnis er í líkamanum en nægt magn súrefnis í blóðrás er mikilvægt til að fitubrennsla eigi sér stað.

Of lítil vatnsdrykkja leiðir til þess að líkaminn rígheldur í hvern dropa og geymir undir húðinni. Þá sjást vöðvar ekki eins vel, og sé um verulegan vökvaskort að ræða verðum við þrútin í framan og á fingrum – þú veist þegar þú nærð ekki hringnum af puttanum. Lausnin á þessu er einföld: Drekka meira vatn því vatn losar vatn… ótrúlegt en satt!!

Við eigum ekki að bíða með að drekka þar til skolturinn er orðinn að ljósritunarpappír að innan, því þá erum við nú þegar farin að þorna of mikið upp í skrokknum.  Það er mikilvægt að vera að sötra jafnt og þétt yfir daginn

Ágætis aðferð (en frekar ógeðfelld) til að meta hvort vatnsþambið er í gúddí gír er að athuga litinn á þvaginu. Ef það er dökkt og mikil “pissulykt” er þörf á meiri vatnsdrykkju en nokkuð glært þvag bendir til að vatnsneysla sé næg.

Og annar viðbjóður í lokin: ef líkamann vantar vatn stelur hann því úr ristli og afleiðingin er hægðatregða… girnó… uuu… nei

Er einhver orðinn þyrstur??