Jarðarberjakókos grautur – bakaður

Þar sem annað fólk hefur eðlilegt magamál er Naglinn með óseðjandi svarthol. Sýnu verst er ástandið eftir slefið á koddann í átta tíma og garnagaulið ómar um stigaganginn og vekur hverfið.  Þá þarf að fóðra kvekendið med det samme með gúrmeti og gleðilegheitum í morgungraut svo báðir séu sáttir: átvaglið og heilsumelurinn.

Naglinn notar mikið af bragðdropum í sitt vesenisstúss í eldhúsinu, og nýjasta gleðin í þeim efnum eru kókosdropar frá Now Foods…. halelúja María og Jósef…. Naglinn fer í hausnum til Bahamas með regnhlífaskreyttan Piña Colada á kantinum. Þetta varð að prófast í grautarkombinasjón og úr varð jarðarberjakókosgrautur… og tíminn stóð í stað meðan þessi rann í ginið.

IMG_5004

Jarðarberjakókosgrautur – bakaður
1 skammtur

haframjöl (magn eftir þörf og smekk)
2-3 skeiðar HUSK
30g rifið zucchini (verður meira magn)
klípa salt
1/2 tsk lyftiduft
vanilluduft
Now kókosdropar
niðurskorin jarðarber
1 tsk Sukrin Gold

Hræra vel saman með gaffli þar til allt blandað fallega saman. Hella í eldfast mót eða sílíkonbrauðform

Baka í 35-40 mín á 170°C
Farðu úr bænum og haltu á ketti að strá Sukrin Gold yfir og stilla á grill í 5 mínútur undir lokin.

Toppa með vanillukremi.

IMG_5009

Vanillukrem

– 75 g kotasæla
– 75 g skyr/kvark
– 1-2 tsk Stevia
– klípa vanilluduft
– valfrjálst: Stevia vanilludropar (Now/Sweet Leaf)

Hræra allt saman með töfrasprota eða í blandara til að fá burt klumpana úr kotó.
Gumsa yfir grautinn og graðga í trýnið.