Allt er í góðum gír í mataræðinu – þú hefur verið 100% í tvær vikur og árangurinn farinn að láta á sér kræla – sentimetrar að hypja sig, bætingar í ræktinni, buxurnar lausari. Hinsvegar er hausinn farinn að stríða þér og litli púkinn á öxlinni er mættur með allar sínar langanir í sveittar franskar, köku, snúð og lakkrís.
Þú reynir að þrauka og hunsa púkann en svo kemur að því… búmm!! þú lætur undan og gúffar í þig pulsu með öllu, skolað niður með svarta dauða úr vél og lakkrís Draumur í desa.
Teningunum hefur verið kastað.
Hvað gera bændur núna? Skellirðu þér aftur á hollustuvagninn med det samme aftur? Nei aldeilis ekki. Þú heldur áfram að troða í smettið á þér öllu sem ekki er neglt niður.
Það er hvort eð er búið að eyðileggja mataræðið þennan daginn svo þú getur allt eins farið eins og stormsveipur um eldhúsið og byrjað aftur á morgun á beinu brautinni.
Þetta eru líklega stærstu mistökin sem fólk gerir. Ef það springur á einu dekki, myndirðu stinga á öll hin með vasahníf?? Nei, fjandinn hafi það, heimskan er ekki svo rosaleg.
En samt er jafn gáfulegt að halda áfram að hrúga upp sukkinu í vömbinni.
Óplönuð hliðarspor af hollustubrautinni eru eins og sprungið dekk – þú vilt þau alls ekki en þau gerast nú samt (jafnvel hjá járnöguðu fólki). En með því að henda sér aftur á vagninn og aftur í hreinlætið takmörkum við skaðann.
Eitt einstakt tilvik þar sem við skautum útaf beinu brautinni mun ekki skemma mikið fyrir – í versta tilfelli færa okkur afturábak um 1-2 daga.
En ef þú snýrð einu smotteríis næringar prumpi upp í allsherjar vambarkýlingu allan daginn og jafnvel næstu daga líka ertu að höggva ansi stórt skarð í árangurinn. Eftir svona svínarí tekur það líkamann um 2-3 daga að komast aftur í fitubrennslugírinn. Og við skulum ekki einu sinni minnast á fitusöfnunina sem sukkið leiðir af sér.
Stór matarveisla getur fært þig afturábak um eina og jafnvel tvær vikur í árangrinum. Jibbí kola!!! Síðasti hálfi mánuðurinn af hamagangi og salat áti sturtað niður í toilettið.
Spurðu þig því næst þegar ein saklaus sneið af súkkulaðiköku snýst upp í þrjár pulsur, rjómatertusneið, Ritz kex með rækjusalati og poka af Kúlu súkki, hvort það sé gaman að moka botnlausa fötu?