Í dag er heimsendir og hvað er betra á þessum síðasta degi veraldar en að gúlla besta bakkelsi í sögu mannkyns – sjálfa drottningu smákakanna: Söru Bernharð. Naglinn er ekki mikið gefin fyrir smákökur en gæti hinsvegar gúffað líkamsþyngd sína í Sörum án þess að blikka auga.
Naglinn vatt sínu kvæði í kross á aðventunni og bakaði í fyrsta skipti þessa dásemd. Vinkona Naglans fékk fregnir af gjörningnum og spurði “Voru þetta heilsuSörur?” Nei aldeilis ekki, þessi pistill og uppskrift á ekkert skylt við hollustu enda eru jólin aðeins einu sinni á ári, ein og ein smjöruð súkkulaðihúðuð kaloríubomba á kantinum er ekkert til að missa svefn yfir. Það má ekki tapa glórunni í boðum og bönnum, það er rósum stráð leið til uppgjafar og frústreringar.
Söru Bernharð kökur
c.a 50 stk
Botnar:
400g fínt hakkaðar möndlur
100g hakkaðar heslihnetur (gefur skemmtilegt tvist)
5 eggjahvítur
6 dl flórsykur
Krem:
600g flórsykur
600g smjör
4-6 msk kakó
4 egg
1-2 tsk Nescafé
Súkkulaðihjúpur:
500g dökkt súkkulaði
1. Hita ofn í 180°C
2. Stífþeyta eggjahvítur
3. Blanda flórsykri og möluðum möndlum/heslihnetum vandlega saman við hvíturnar með sleif…. með sleif… ekki reyna að hræra gumsið allt saman í hrærivél… þá fer illa fyrir hvítunum
4. Móta kúlur með teskeið á bökunarpappír
* Ekki of stórar kúlur samt…. þá þarftu að skafa þær upp og endurtaka leikinn eins og bitur reynsla getur kennt sumum *hóst* þetta eru víst ekki Söru Bernhard pizzur
5. Baka botna í 15-20 mín þar til þær eru orðnar gylltar að ofan og stökkar
6. Hræra saman kremið. Smjör og egg hrært saman. Sigta flórsykur útí ásamt kakó og Nescafé og vinna vel saman.
7. Smyrja 1 tsk af kremi á sléttu hliðina á botnunum þegar þeir eru orðnir kaldir.
8. Henda kremuðum botnum í frysti í 15-30 mín
9. Bræða súkkulaði í vatnsbaði og smyrja yfir frystar Sörurnar. Ef þær eru ófrystar bráðnar smjörkremið í öreindir sínar þegar súkkulaðið mætir á svæðið.
Voilá.. aðeins fimm og hálfum tíma seinna eru tilbúnar dýrindis Sörur sem bráðna á hamingjusamri tungunni.
Nú mega jólin koma.