Ræktaður eða sukkaður

Jólin lúra handan við helgina og hvað er það fyrsta sem kemur upp í hugann?

Ómannlegt magn af mat, jólasteik, smákökur, sósa, brúnaðar kartöflur, rísalamand, randalína, sörur und so weiter.

“Fokk itt, skítt með það, fáum okkur meiri rjóma. Ég plokka þetta af á nýju ári”.

Allur desember og jólin sjálf eru stór áskorun þar sem smjör drýpur af hverju húsþaki og bakkelsi á boðstólum í hverju koti.  Jólakíló eiga ekki að vera náttúrulögmál því það er hægt að njóta desember án þess að augun standi á stilkum og kjötsvitinn leki niður bjúgaða vömbina.

 Binge-eating

Ekki nema þú hafir fyllt vélindað upp að úfinum af Nóa konfekti þarftu ekki að missa svefn yfir örfáum hliðarsporum því það mun ekki sitja eftir á skottinu ef þú ferð inn í hátíðirnar með skothelda aðgerðaráætlun í vasanum.
Lykillinn að langtímaárangri er að tileinka sér það hugarfar að þetta sé lífsstíll en ekki “átak” með síðasta söludag.
Þú borðar hollt af því þetta er lífsstíllinn þinn og það þýðir að þú getur fléttað nokkur hátíðarsukk inn í planið. Það er partur af prógrammet að taka þátt í gleðinni í desember en með hófsemi sem leiðsögumann.
Besta ráðið þegar kemur að hátíðaráti er að halda sig við planið í þeim máltíðum sem við höfum stjórn á.  Sem þýðir að þó smákökur flæði úr öllum eldhússkápum þarftu ekki að éta spesíur og piparkökur í hvert mál.

Þó veisluborðin svigni undan hamborgarahrygg með pöru og hele svineriet þarftu ekki að liggja allan daginn í sukkinu bara af því það er jólamatur í kvöldmat.

Þó þú gæðir þér á einstaka söru hér, piparköku þar, randalínu á kantinum skolað niður með jólaöli þarftu að forðast að hleypa andfélagslegum hugsunum inní gráa gumsið: “Ég er aumingi með enga sjálfsstjórn. Ég er hvort eð er búin(n) að skemma allt svo ég get allt eins klárað úr kökustampinum.”

All-or-nothing thinking

Svart-hvítur hugsunarháttur gagnvart mataræði og heilsusamlegu líferni eru hættulegasti ferðafélaginn á heilsubrautinni.
Ef þú ert annað hvort ræktaður eða sukkaður, ekkert grátt svæði, málamiðlun eða millivegur, elurðu af þér spiral af neikvæðum hugsunum, sjálfsniðurbroti og óæskilegri hegðun.

Svart-hvítar hugsanir gagnvart mat og jólunum, boð og bönn þar sem matur er annað hvort vondur eða góður, hollur eða óhollur, leyfilegur eða bannaður, festistu í köngulóarvef af neikvæðum hugsunum sem endar með að þú springur á limminu og étur allt sem er ekki niðurneglt með meðfylgjandi niðurrifsstarfssemi.

Leyfðu þér að njóta þín.  Þegar þú ert meðvituð/aður og raunsæ(r) eru minni líkur á að þú borðir yfir þig, eins og gerist þegar við lítum á matinn sem svindl og bannað.

Haltu áfram að æfa yfir hátíðirnar, borðaðu að mestu leyti hollar máltíðir og skildu eftir pláss fyrir gleðina.  Ekki reyna að vera fullkomin(n), það er óraunhæft og passar ekki inn þá hugsun að þetta sé lífsstíll. En”fokk itt, skítt með það, konfekt í morgunmat á jóladag”, passar heldur ekki inn í lífsstílshugtakið.

Taktu ábyrgð á eigin hegðun og farðu inn í jólin með aðgerðaráætlun: Þú ætlar að halda þig á beinu brautinni í meirihluta máltíða. Hinsvegar skaltu gera ráð fyrir sveigjanleika og fyrirgefningu syndanna á sama tíma og þú horfir raunsætt á hlutina og þær væntingar sem þú gerir til þín. Alveg sama hvað þú ert búin(n) að plana niður í öreindir munu alltaf koma upp óviðráðanlegar aðstæður.
Yfir hátíðirnar þarftu að hafa plan, ef það þýðir að plana aðeins fleiri frjálsar máltíðir þá “fokk itt, skítt með það”.

Hvað með árangurinn? Nokkrar máltíðir hér og þar munu ekki drepa niður það sem þú hefur djöflast í að skafa af/byggja upp í allt haust.

Stjórnaðu skammtastærðunum í þeim máltíðum sem þú hefur ekki stjórn á.  Fjöldi hitaeininga sem rennur ofan í kokið ræður hvaða áhrif máltíðin hefur á rass og mjaðmir.  Fáðu þér eðlilegan skammt, og þú ert í góðum gír.

Það sem færir þig afturábak í árangri er stöðugt sukk í fleiri daga þar sem hver einasta máltíð er majónesumarínerað sykurhúðað rugl. Borðaðu yfir þig á aðfangadag, jóladag, annan í jólum, gamlárskvöld, nýársdag, með konfekt og smákökur á kantinum hina dagana máttu búast við grátbólgnum augum í janúar.

Holiday Diet

Þegar þú lokar augunum fyrir þeim ákvörðunum sem þú tekur og þeim afleiðingum sem þær hafa á sálartetrið og skrokkinn ertu að valhoppa leiðina til uppgjafar.
En við getum heldur ekki verið í fangelsi þurrelsis í mataræði meðan náunginn úðar í sig kræsingum með súkkulaðitaum út á kinn.

Það er gömul saga og ný að gullni meðalvegurinn blífar alltaf best.