Keisarinn er kolvetnasveltur

Kolvetnasnauðir kúrar eru fyrirbæri sem undanfarin misseri hafa troðið sér upp á sótsvartan pöpulinn eins og leiðinlegi frændinn í fermingarveislu.

Þar sem slíkir kúrar hafa stuðlað að ÞYNGDARtapi á ógnarhraða eru þeir baðaðir rósrauðum bjarma og hylltir eins og nakti keisarinn forðum. En hversu mikið af þessu tapi er smjör og hversu stór hluti sem fýkur er kjetið sem við höfum slefað við að byggja upp? Og hversu stór hluti er hreinlega bara vatn og glýkógen?

Það sem þarf að troða með olíu og skóhorni inn í eyrnamerg almúgans er: Kolvetni eru ekki fitandi!!! Það sem er fitandi eru OF MARGAR HITAEININGAR, og þær geta komið úr prótíni, kolvetnum og fitu og já alkóhóli… só sorrý

Maður spyr sig, í hvaða vídd getur það orðið heilsusamlegur lífsstíll að hundsa heilu fæðuflokkana?

Og hvers konar snautlega meinlætalíf er það að troða ekki haframjöli, hrísgrjónum, karpellum, byggi, cous cous, quinoa og grófu brauði í grímuna?

Kolvetni eru uppáhalds eldsneyti líkamans og sterkja og heilkorn eru 98 oktana brjálæðingar sem knýja okkur áfram í leik og starfi og þar með í átökunum í musteri heilsunnar. Þegar við hinsvegar skerum kolvetnin við nögl er enginn glúkósi í kjötinu og við jafn öflug og útspýtt hundskinn á æfingu. Hvaða bætingar og kjötsöfnun kemur útúr svoleiðis ræfilsgangi?

Lítum nú aðeins á vísindin… ohhh… boring!!… látið ekki svona, vits er þörf þeim er víða ratar.
Við meltingu breytast flókin og einföld kolvetni í glúkósa og blóðsykurinn hækkar sem er vekjaraklukka fyrir brisið að losa út insúlín. Það sópar svo upp glúkósanum og breytir honum í glykógen sem er forðabúr líkamans og geymt í lifur og vöðvum.  Þegar þessar birgðir eru orðnar vel þjappaðar er aukalegum glúkósa breytt í smjörva sem sleikir sig á rass og læri.

Ef blóðsykur fellur kemur glýkógen í lifur til bjargar í níðþröngum sokkabuxum sveipað skikkju og breytist í glúkósa til að halda stöðugleika í partýinu.

Hinsvegar með því að henda heilu næringarefni eins og kolvetnum út í hafsauga gerum við skrokkinn að óskilvirkum aumingja í meltingu og vinnslu þeirra.
Þú forðast sterkjuna eins og loga vítis yfir vikuna en ákveður að kitla pinnann á laugardegi með ristuðu brauði með smjöri og osti og hvað gerist…. mallakútur blæs upp eins og gasblaðra á 17. júní í orðsins fyllstu.

Því lengur sem við vöðum villu og svíma í kolvetnasvelti því verra verður insúlínnæmi líkamans. Sem þýðir að insúlínið verður atvinnulaust í að lækka blóðsykur. Hann keyrist þá upp yfir normalmörk sem getur haft ömurlegar afleiðingar fyrir heilsuna, t.d hækka blóðþrýsting, blóðfitu og eykur hættulegu kviðfituna.

Kolvetni eru líka sá orkugjafi sem núðlan kýs og án þeirra prumpar vitsmunastarf glimmeri.
Prófaðu að læra fyrir próf á kolvetnasnauðum kúr… óska þér velfarnaðar í því verkefni… algjörlega vonlaust!!
Þar sem heilinn er heimtufrekari en leikskólabarn í Nammilandi, krefst hann umbreytinga á vöðvaprótínum í glúkósa (gluconeogenesis) til að fá orku og afleiðingar þess á kjötforða líkamans þarf ekki að fjölyrða um.
Alzheimer-rannsóknir á mýslum hafa jafnframt sýnt að heili þeirra sem eru kolvetnasveltar er 5% léttari en hjá þeim sem smjatta á korni og sterkju.

Að auki stuðlar kolvetnaneysla að nægilegri serotonin framleiðslu í heilanum, sem er gleðihormónið og viðheldur bullandi stemmningu í sinninu.

Hver vill vera um borð í TF-Stuð með Páli Óskari?
Hver vill vera eins og berserkur á æfingu?
Hver vill vera vera gubbandi af orku alla daga?
Hver vill tæta upp vitsmunastarf fyrir allan peninginn?

Hættu þá þessum öfgum og borðaðu kolvetni!!