Kona þarf megrun eins og fiskur þarf reiðhjól

Naglinn hefur reynt að halda í sér bölsótinu en getur ekki orða bundist lengur. Netmiðlar og tímarit gubba útúr sér heilu dálkunum af beinlínis heilsuspillandi ráðleggingum um fitutap með pervertískum áherslum á megrun og kílóatapi beindum að kvenpeningnum.

Töfralausnir og ráðleggingar ríða húsum frá hinum og þessum kroppatemjurum sem hafa þann starfa að tálga grindhoraðar Hollívúdd stjörnur svo þær leysist upp í frumeindir sínar.
Konum er kennt að sú sem borðar minnst, hún vinnur, og því færri máltíðir yfir daginn því betra.

“Alls ekki borða eftir kvöldmat því það breytist í fitu á núll einni, kolvetni og prótín mega ekki snertast því þá umbreytast þau í mör með óútskýrðum mekanisma, og aðeins handfylli af matarörðum skal troðið í grímuna í hverri máltíð… hey Victoria Beckham gerir það og þá hlýtur það að vera sniðugt!!”

Jafnvel skal mauka þessar örfáu leyfilegur kaloríur niður í barnamatskrúsir og borða aðeins eina slíka, nú eða blanda dufti í vatn í eins mörgum máltíðum og þú kemst yfir (og því meira græðir framleiðandinn).

“Svöng?? Orkulaus?? Girtu þig í brók kona…. stjörnurnar þola hungrið og sjáðu hvað þær eru flottar”
Það er troðið í hausinn á konum að matur sé Satans og ellefta boðorðið er: Þér skuluð samviskubit hafa eftir hvern snæðing sem ekki er kálblað og fiðurfé.

Þegar meðal-Jónan vaknar á morgnana er hún uppfull af metnaði fyrir nýjan dag, nú skal sko farið eftir þessum stjörnuráðum og vera í megrun eins og flottu tútturnar í glanssneplunum.
Einmana hrökkbrauð í morgunmat, aumingjaleg skyrdós í hádegi með nokkrum kálblöðum og ekki má gleyma dítox söfunum…. “svo bara þamba vatn, vatn, vatn.. koma svo!!!“

 

En þegar líður á daginn fer heldur að kárna gamanið, maginn er ósáttur við að vera hlunnfarinn um fleiri hundruð kaloríur og gargar á orku með garnagauli og hungri.
Heilinn tekur þátt í gleðinni og þrengir inn hugsunum og löngunum í súkkulaði, kex, snakk… allt sem heitir skjót orka núna núna!! fær að svamla um í klámfengnum stellingum í gráa efninu.
Líkaminn er nefnilega lúmskur fjandi, hann skal og vill fá sitt bensín sama í hvaða mynd það rennur niður vélindað.

Um fimmleytið dettur viljastyrkurinn örendur niður hungrinu að bráð og hendurnar tæta upp kexpakkann eins og vannærðar dúfur á brauðhleif.
En strax í kjölfar á kexáts hefst ólympískt niðurrif á sjálfinu yfir að geta ekki haldið út “megrun” eins og hinar stjörnurnar og selebbin og lofað yfirbót með sautján Maríubænum og svipuhöggum á eigið bak. “Bara eitt hrökkbrauð og hálf appelsína í fyrramálið.”

Þessi hegðun skapar vítahring af hringspóli í sömu hjólförunum ár eftir ár með handónýtt brennslukerfi-missa tíu en bæta á sig fimmtán – en samt er farið eftir þessum eðalráðum.
“Ég skil ekki af hverju barnamatskúrinn virkar ekki á mig??” Af því þú ert ekki 10 kg hvítvoðungur!!

Sjálfsmyndin hefur yfirgefið bygginguna og dundar sér ofan í Gustavsberginu með blöðum af Lambi pappír. “I’m a loser baby….”

Til þess að forðast þennan forarpytt þarf að kenna konum að hætta þessari endalausu megrunaráráttu, lyfta lóðum og nærast eins og manneskja, ekki kroppaður kjölturakki.
Sjálfstraustið keyrist í bullandi botn við tilfinninguna að geta brúkað líkamann til góðra verka innan ræktarveggja sem utan og það gerist ekki með duftbland hringsólandi einmana í mallakút.
Til þess að eiga vel fúnkerandi skrokk þarf að fóðra vöðvana frekar en að svelta burt fituna með ræfilslegu kroppi.
Reglulegar heilsusamlegar og nærandi máltíðir, fimm til sex sinnum yfir daginn, og já borða líka fyrir svefninn sem er lengsta föstuástand dagsins.  Öll dýrin í skóginum prótín, kolvetni og fita, eru vinir okkar.
Þannig höldum við blóðsykri stöðugum og byggjum upp gæðakjöt, samhliða fitutapi sé það markmiðið.
Oft kemur fram kvíðaröskun yfir að borða sex sinnum á dag þar sem skilaboðin í gegnum tíðina hafa verið að þú eigir að sleikja sultarrimina viljirðu missa mör. “Ó MÆ GOD… flókin kolvetni… eru þau ekki afkvæmi Kölska?? Á ég að borða allan þennan hafragraut? Þetta eru alltof stórir skammtar, nú hlýt ég að blása út á einni nóttu eins og gasblaðra á sautjánda júní .”

Hálft epli kallast ekki máltíð, það kallast kropp.…með því að næra þig á heilum afurðum og hollum máltíðum kemurðu ekki einungis í veg fyrir sundurtættan Nóakroppspoka í seinni kaffinu heldur ertu að vinna MEÐ líkamanum, en ekki misþyrma honum.
Því hann hefnir sín þegar við sveltum hann,vertu viss um það, hann hefnir sín grimmt með vöðvaniðurrifi, lækkaðri grunnbrennslu og óskilvirkri líkamsstarfssemi fyrir næstu tilraunir til fitutaps eða kjötbyggingar.

Ef þú ert langt frá kjörþyngd og vilt missa fitu eru ræfilslegir snæðingar ekki aðferðin til þess heldur skynsamlegar aðferðir með nægri næringu fyrir ræktina og hið daglega líf og afgangurinn nýtist í kjötbyggingu og heilbrigða líkamsstarfssemi.
Langtímaverkefni er nefnilega hið nýja svart og við eigum að njóta ferðalagsins að betri heilsu og hraustari skrokki, en ekki fylgja heilsuspillandi ráðleggingum þeirra sem nota snarbrengluð viðmið um að kvenlíkami eigi að líta út eins og úttálgað, örþunnt hræ.