Keyser Söze

Tíminn líður sannarlega hratt þegar það er gaman að lifa.
En það er ekki gaman þegar við erum í sorg og sút að neita okkur um lífsins gúrmeti.  Þess vegna sker það í hjartað þegar fólk velkist í vafa hvort það eigi að fá sér páskaegg á páskum.

Halló!! Af hverju ekki í ósköpunum?

Naglinn státaði sig nýlega af kílóa páskaegginu sínu við kunningjakonu sína.

“Ha???” sagði viðmælandinn. “Borðar þú páskaegg? Ég var viss um að þú borðaðir ekki súkkulaði.”

Anda inn, anda út, telja frá hundrað afturábak, finna þriðja augað, Hare Krishna, regnbogar, hvolpar og sólblóm.

Áður en Naglinn fnæsti úr nösunum og stangaði blóð úr tönnunum af pirringi læddist sú hugsun í núðluna að skiljanlega heldur aumingja konan að Naglinn sé Keyser Soze heilsuheimsins.
Ef þú skrifar pistla um að sykur sé á pari við heroin geturðu ekki borðað kilo af súkkulaði með annarri….eða hvað?

 

IMG_3258

Þar sem Naglinn býr í København og því rekst enginn á túttuna í Nammilandinu á laugardögum.
Sveipuð dulúð hýðishrísgrjóna og brokkolís – ofurkonan sem hefur viljastyrk á við sautján nashyrninga í makaleit.

Púritani, munkur, frímúrari, stúkumeðlimur rúllað í einn pakka af ljóshærðu meðalháu kvendi.

En það verður víst að sprengja þá sápukúlu með títuprjón.

Þó hér á síðunum sé ritað um sykur sem fíkniefni og fárast yfir hamborgarakaupum landans er Naglinn ekki í kategoríu með amöbum í fæðuvali.

IMG_3557

Auðvitað borðar Naglinn súkkulaði en takmarkar þá gleði við helgarnar og heldur sig á mottunni aðra daga vikunnar. 90-95% tímans er magaholið fyllt með gómsætum hollustumáltíðum sem skila dásamlegri og stöðugri orku.  Hin 5-10% fær villidýrið að hleypa á skeið um súkkulaðistráðar sykurlendur og  sósaða skyndibita akra.

Naglinn er Vog og vill því hafa jafnvægi í lífinu.  Að horfa fram á veginn og sjá hvergi súkkulaðimola í vegkantinum fellur undir öfgar og ójafnvægi. Það myndi valda of mikilli óhamingju í hjartanu að geta aldrei löðrað sig í óhollustu og viljinn til að valhoppa heilsubrautina biði alvarlegan skaða.

Naglinn borðar hamborgara og franskar með majó (já hér í Danaveldi er majónesa með fröllunum)

Ekkert “sleppa efra brauðinu og salat með” kjaftæði.

 

IMG_1550

Fyrst maður er að þessu á annað borð er eins gott að fara alla leið….já já góðir hálsar… Naglinn gerist líka sek um svart-hvítan hugsunarhátt eins og aðrir dauðlegir.

Hver öreind kláruð af disknum og restin af frönskunum frá húsbandinu – hann er ekki atvinnumaður í áti með frjálsri atrennu eins og spúsan.

Pizza er uppáhaldssukk og hverri sneið torgað með hvítlauksolíu á kantinum… svona af því það er ekki nóg af kaloríum í 12 tommum af hveitisulli og spikfeitum osti.

 

DSC_0553

 

“Bland-selv-slik” búðirnar eru svar Dana við Nammilandi Hagkaupa og þangað er tölt um helgar og sjálfsstjórnin skilin eftir fyrir utan, rækilega tjóðraða við næsta brunahana. Með skeiðina að vopni er mokað ofan í pokann. Og snarbrenglaðar sjálfsblekkingar flæða um hausinn – “ kaloríurnar úr molunum sem fara upp í munn í búðinni telja ekki.”

Svo er höndin eins og aðskotahlutur sem mokar upp í túlann hugsunarlaust og allt bragð af sælgætinu er löngu glatað í svarthol græðginnar.

 

DSC01250

 

 

IMG_3012

 

Barnaafmæli… það er utopia fyrir átvaglið því kökublætið er patólógískt og löngu komin röskunargreining þegar átjánda ferðin er farin á veisluborðið og gestgjafarnir löngu farnir að sjá eftir boðskortinu. “Ég hélt að hún myndi ekki éta neitt en hún er að klára veitingarnar fyrir hinum…. snaraðu fram öllu sem við eigum í ísskápnum.”

Keyser Söze? Neii… miklu nær Verbal Kint með súkkulaðismurðar tennur.

Og hvað gera bændur eftir átveislur?

Ferðu út að hlaupa tuttuguogfimm kilometra með áttatíu froskahoppum og hundrað armbeygjum því það jafngildir kaloríunum í eggi númer tíu?
Grænir sjeikar í sjö daga til að hreinsa ristilinn og dítoxa og vatnslosa og kolvetnissvelta.  Nei takk, sama og þegið, bara alveg ómögulega takk.

 

IMG_0417

Þú hendir þér bara í gömlu góðu rútínuna daginn eftir með öllum þínum máltíðum dagsins, kolvetnum og alles og rífur í stálið full af orku gærdagsins.  Enginn sammari, ekkert niðurrif, engar refsiaðgerðir… bara hamingja og gleði… og smá bjúgaðir puttar og þrengri buxur í tvo daga. Hverjum er ekki sama?

Það eina sem er bannað í lífsstílshugtakinu er samviskubitsniðurrif og refsiaðgerðir.
Ekki láta eitt súkkulaði á kantinum leiða þig í vítahring kaloríutalningar á brettinu með reyrða sultaról.  Það skapar neikvætt tilfinningasamband við lífsstílinn.
Páskar eru einu sinni á ári.
Jól eru einu sinni á ári
Þú átt afmæli einu sinni á ári.

Það sem þú gerir hin 90% tímans er það sem skiptir máli.
Svo löðrið ykkur í páskasúkkulaði, rísalamand eða afmælistertu með góðri samvisku.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s