Vogue og Cosmopolitan

Þegar Naglinn komst á kynþroskaskeiðið voru Vogue, Elle, Cosmopolitan og aðrir slíkir sneplar lesnir í öreindir. Glansandi síðurnar sýndu spjarir sem þóttu móðins þá stundina.  Tískustraumarnir voru þó yfirleitt aukaatriði við flettingarnar, því aðalmálið var að eyða orku í öfund út í skinhoraða skrokkana sem voru innanundir lörfunum. 

Að hafa bil milli læra sem myndi rúma fótbolta, leggi upp að höku var álitið lykillinn að eilífri hamingju.  Að sjá allavega tvö til fjögur rifbein myndi aðeins setja kirsuber á toppinn á þessari gleði. Að komast í gallabuxur nr. 26 hlyti að vera næsti bær við Útópíu.
Gilti einu að erfðirnar voru ekki sammála þessum draumförum, því rétt rúmlega hálfur annar metri af vestfirskum þéttleika væri arfaslakur kandídat í spóaleggi og kroppaða handleggi.

 

 Síðar tóku við ólympísk áhorf á þáttaseríuna Vini þar sem stallsysturnar Rachel og Monica voru helstu fyrirmyndir um hvernig skrokkur ætti að líta út, eða eins og Chupa Chups sleikipinni…. með höfuðið úr öllu stærðar samhengi við sultarlegan þráðbeinan skrokk.

 Á sokkabandsárunum innan veggja heilsumustera var markmiðið fyrst um sinn að eignast minni útgáfu af eigin skrokki, 

Eftir því sem á leið  fóru þessi viðhorf smám saman að breytast.  Sérstaklega með því að skipta út glansbleðlunum fyrir vöðvablöð.
Þá varð markmiðið að byggja upp slíkt magn kjöts eins og þær sem prýddu það lesefni. Þetta ferli átti að gerast í gær, fyrradag hefði verið betra samt, en grákaldur veruleikinn minnti á sig með náttúrulögmál kvenlíkamans að taka langan tíma í kjötsöfnun.

 

Þó kjötsöfnun sé ennþá á kantinum hafa markmið Naglans hin síðari ár þróast smám saman frá því að líta út á ákveðinn hátt.  Mikilvægara er að leyfa líkamanum að fara í það horf sem DNA deildin ákveður með að ástunda ástríðuna í lífinu af áfergju: járnrífingar og satanískar æfingar.  Svo lengi sem lærin ráða við grimmar hnébeygjur er ummál þeirra algjört aukaatriði.  Skinhoraðir handleggir geta aldrei ráðið við bekkpressu og því er nærveru þeirra ekki óskað.

 

Á einhverjum tímapunkti þurfum við konur nefnilega að hætta að missa svefn yfir númerum, kílógrömmum, fatastærðium eða eltast við snarklikkaðar fótósjoppaðar útlits kröfur samfélagsins sem viðmið.  Slíkur eltingarleikur endar oftar en ekki í vítahring af óheilbrigri hegðun af dramatískum fitutapsaðferðum, frústrasjón, lækkaðri grunnbrennslu og tilheyrandi fitusöfnun í kjölfarið.

 Einblínum frekar á hvað skrokkurinn getur og leyfum honum að fara í það kökuform sem honum er eðlislægt. 

Gerum skrokkinn skilvirkari og betri útgáfu af sjálfum sér með að hugsa vel um mataræðið og gefa allt í botn í æfingunum.

Nú eru fyrirmyndir Naglans grjótharðar konur eins og Annie Mist Þórisdóttir (CrossFit), Helga Margrét Þorsteinsdóttir (frjálsíþróttakona), Silja Úlfarsdóttir (spretthlaupari), Jóhanna Eivinsdóttir (Sterkasta kona Íslands) og fleiri túttur sem geta eitthvað með skrokknum sínum.  Skonsur sem geta sprettað, rifið í járn, gert hnébeygjur, upphífingar, armbeygjur.

Að vera í góðu formi er að geta gert það sem maður vill þegar maður vill, og það er svo miklu mikilvægara en númer á brókum eða tala á vigt.

 

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s