Sumir fussa kannski og sveia yfir að borða hráar eggjahvítur en Rocky og Jón Páll hentu því í grímuna og þeir voru nú vel kjötaðir. En hvað með salmó og annan ófögnuð? Líkur á að fá salmónellu úr eggjahvítum eru 1:50000, en allur er varinn góður samt. Passaðu að hvíturnar séu gerilsneyddar því þá er búið að snöggsjóða þær og drepa þannig nelluna ef hún skyldi vera til staðar.
Þessi búðingur blekkir litla púkann því hann heldur að nú sé súkkulaðibúðingur að renna niður vélindað og í kjölfarið steinþegir hann saddur og sæll.
Innihald:
150 g eggjahvítur
2 tsk Hershey’s sykurlaust kakó (fæst í Kosti, Dalvegi)
2 tsk gervisæta (Naglinn notar Sukrinmelis)
1-2 msk karamellu sykurlaust síróp eða bragðdropar
Aðferð:
Blanda kakó og gervisætu saman í litla skál.
Stífþeyta eggjahvítur þar til myndast toppar og dældir. Bæta þá kakóblöndunni útí í smá skömmtum meðan þeytt er af krafti áfram. Allra síðast hella sírópinu útí.
Þegar allt er orðið vel stíft er búddinn klár.
Sáldra smá kakói yfir og ef sá gállinn er á þér er karamellusósa frá Walden Farms dónalega gott útá.
Súkkulaðibúðingur með karamellusósu – hollt og löglegt… er hægt að biðja um meira í þessu lífi?
Sóðalega gott með nátttúrulegu möndlusmjöri eða hnetusmjöri á kantinum, nú eða blanda niðurskornum banana og jarðarberjum útí dýrðina.
Heiða
Herregud hvað þetta er girnilegt! Banani, jarðarber og bláber og jólin eru komin!