Margir forðast hnetusmjör eins og Icesave samninginn haldnir þeirri firru að hér sé argasta óhollusta á ferð. En það er mikill misskilningur því hnetusmjör er afbragðs fitugjafi, með um 53 g af fitu í 100 g, og að stærstum hluta ómettaðar fitusýrur.
Gagnsemi ómettaðra fitusýra fyrir líkamann og heilsuna eru vel þekktar.
Meðal annars má nefna:
▪ hjálpar til við myndun hemóglóbíns sem flytur súrefni um líkamann og hefur þannig jákvæð áhrif á hjarta- og æðakerfið
▪ jákvæð áhrif á skjaldkirtilshormón sem hjálpar til við brennslu á líkamsfitu
▪ minni líkamsfita dregur úr insúlínónæmi sem er helsti orsakavaldur sykursýki II
▪ umlykur frumur og heldur bakteríum og vírusum í burtu
▪ heldur liðamótum vel smurðum
▪ bætir ónæmiskerfið
Það er hins vegar mikilvægt að velja náttúrulegt hnetusmjör sem má þekkja á því að olían sest ofan á hnetusmjörið og inniheldur eingöngu jarðhnetur (og salt). Hinsvegar skal forðast fabrikkaðan útúrsykraðan ófögnuðinn sem er sneisafullur af pálmaolíu, sykri og fleiri óhollustu.
Náttúrulegt hnetusmjör er mjög hitaeiningaríkt, eða um 650 hitaeiningar í 100 grömmum, og því er mikilvægt að passa skammtinn og margir sem flaska á því. Það er nefnilega auðvelt að missa sig þegar þetta gúmmulaði er annars vegar.
Hæfilegur skammtur fyrir fólk í fitutapi eru um 15-20 grömm sem er ekki nema ein teskeið.
Þeir sem vilja hinsvegar byggja upp kjöt utan á skrokkinn eða viðhalda þyngd sinni geta miðað við 20-30 grömm í skammti, en það fer auðvitað eftir þyngd hvers og eins.
Hnetusmjör er mjög mettandi vegna fitumagnsins og hitaeininganna, svo ekki sé minnst á gleðidansinn sem bragðlaukarnir stíga þegar þessi dásemd rennur um munnholið og heldur okkur því vel á mottunni í mataræði.
Hver þarf að svindla þegar svona gúrmeti er í boði?
* Leyndarmál úr eldhúsinu: Best er að geyma hnetusmjör á hvolfi því þá blandast olían við gumsið og ekki þarf að fara úr olnbogalið við að hræra henni samanvið.
Pingback: Hreinlætið | ragganagli
Pingback: Hnetusmjörs ostakökubitar | ragganagli