Mættu í lífið án afsakana

 

Naglinn var að hamra út snörun í ræktinni.

Kona vatt sér upp að hlið Naglans og sagði:

“Ég verð að segja hvað er gaman að fylgjast með þér æfa.”
“Þú ert svo sterk og örugg.

Eins og með kláðamaur innanklæða fór Naglinn öll á ið í vandræðagangi.

Og byrjaði strax að gubba út afsökunum á færibandi.

“Ég er nú ekki eins sterk og margar konur.”
“Þetta er nú ekki þungt á stönginni.”
“Er bara með léttar þyngdir að vinna í tækninni”
“Byrjaði bara fyrir ári síðan að gera snörun svo er ekkert rosa flink.”

“Tja sagði konan…. hvað sem því líður finnst mér þetta aðdáunarvert og þú ert mér mikil fyrirmynd.
Ég get sjálf ekki gert snörun en þú ert mér innblástur að reyna.”

 

 

Eftirá varð Naglinn hugsi… mjög hugsi. Svo djúpt hugsi að heitar gufur stigu úr hrukkunni á enninu.

Af hverju afskrifar maður alltaf hrós eins og neyslulán frá 2007.
Af hverju erum við alltaf að afsaka okkur?
Berum okkur saman við random fólk sem er á allt öðrum stað í sinni þjálfun. Með allt annan lífsstíl. Á allt öðrum aldri og með aðra líkamsgerð.

En Skruðningarnir suða í hausnum að þau séu sniðugri, klárari, betri, sneggri, sterkari.

Rífum sjálfið niður eins og gamlan Icesave samning

Þú sért ekki nóg. Eigir ekki nóg. Gerir ekki nóg.

Getum við ekki bara mætt hnarreist inn í lífið án þess að gera lítið úr afrekum okkar

Getum við ekki sagt með bakið beint og kassann fram:
“Takk fyrir hrósið. Ég hef unnið hörðum sigggrónum höndum að þessu.”

 

 

Verið stolt af eigin frammistöðu og miðað eingöngu við okkur sjálf.

Ég er kannski ekki eins sterk, snögg, stór, og eitthvað random fólk á samfélagsmiðlum.
En ÉG er betri, sneggri og sterkari í dag en ÉG var í gær.

Það er eini samanburðurinn sem þarf að gera.

Þótt skífurnar séu stundum á táningsaldri er maður samt alltaf að gera sitt allra besta.
Blóð, tár og rassasviti.

Því við erum alltaf nóg.
Við gerum alltaf nóg.

Þú ert líka fyrirmynd fyrir einhvern þarna úti.