Vertu smitberi

Hversu oft fitja börnin upp á nefið þegar brokkolí kemur í radíus við eldhúsborðið.

Unglingurinn sökkvir sér ofan í æfóninn þegar honum er boðið spínatsalat.

Makinn hnussar “Er þetta eitthvað hollustukjaftæði?” þegar þú býður upp á nýjan heilsurétt.

Systirin hneykslast á öllu þessu hlaupaveseni í þér. “Er þetta ekki slæmt fyrir hnén.”

Vinirnir hlægja í föstudagsbjór. “Nei hann er ekkert að drekka í kvöld. Orðinn svo heilagur í þessu heilsuveseni.”

Að breyta lífsstíl sínum getur oft verið eins og að synda á móti straumnum í Öxará.

Þú upplifir einmanaleika.
Skilningsleysi og skort á stuðningi.
Vonleysi og frústrasjón.

 

 

Auglýsingar, athugasemdir, yfirlýsingar og neikvæðni eru eins og árstraumurinn sem reyna að hrífa þig með sér til baka.

Því samfélagið vill að þú sért niðri í sollinum með sér innan um sveittar franskar, djamm og sjónvarpsgláp.

Þá er alltof auðvelt að henda inn handklæðinu, hætta þessu heilsuveseni og láta hrífast aftur niður ána með straumnum.

Rannsóknir sýna að við breytum venjum okkar til að þær passi við félagslega netið okkar.

Í hvora áttina sem er.

 

People-jogging

En haltu fast í trjágreinina og haltu áfram að berjast upp í móti.

Vertu fyrirmynd og sýndu hinum að heilbrigt líferni geri þig að betri manneskju og þar með betra foreldri, systkini og vini.
Því þegar okkur líður betur með okkur sjálf þá sýnum við meiri kærleika og hlýju.

Því venjur eru smitandi.
Hvort sem þær eru góðar eða slæmar.

Vertu smitberi.