Albönsk fjölskylda er sótt af lögreglu að næturlagi í Reykjavík, smalað upp í rútu og smokrað úr landi. Þar af þriggja ára langveikum syni þeirra.
Tveimur vikum fyrir jól. Til hamingju Ísland !
Donald Trump forsetaframbjóðandi Repúblíkana lýsti yfir í vikunni að banna ætti ferðir múslima til Bandaríkjanna og merkja þá alla.
Austurrískur maður með hormottu og smjörsleikt til hliðar kemur einhverra hluta upp í hugann.
Naglinn átti samræður við mann fyrir skömmu sem sagðist hafa hugsað um að flytjast búferlum til ákveðinnar borgar í Svíþjóð, en orðið afhuga “því þar byggju svo margir múslímar. Manni stendur náttúrulega ekkert á sama eftir þetta sem gerðist í París um daginn.”
Tölva Naglans gaf upp öndina á dögunum enda antíkgripur. Sex ára Macci flokkast víst sem ellilífeyrisþegi nú til dags.
Á verkstæði brunað á hjólfáknum en eins og títt er hér í Kóngsins eru það múslimar sem sjá um ýmsa sölu og þjónustu eins og hjólaviðgerðir, símaviðgerðir, saumaviðgerðir og tölvuviðgerðir.
Sultardropi lak úr nefi eftir hjólatúrinn sem reynt var að forða með sjómannstöktum í nefsogi og þurrkun með vettlingi. Óumbeðinn útúr blánum rétti afgreiðslumaðurinn box af snýtipappír til að Naglinn gæti þurrkað hortauminn.
Svo var stúlkunni boðið inn í bakherbergi aleinni með þessum stórhættulegu mönnum sem auðvitað ætluðu að skiptast á að limlesta og raðnauðga Naglanum …. eða bara bjóða uppá piparkökur og fara yfir hvaða skjöl ætti að halda inni í tölvunni og hverju mætti eyða.
Þegar þeir voru búnir að aftengja sprengjuvestið fóru þeir að gera sitt ítrasta til að bjarga því sem bjarga mátti og lappa uppá örvasa harða diskinn.
Þeir hringdu tvisvar til að láta vita af gangi mála og hvænær mætti sækja fatlafólið.
Síðan gáfu þeir Naglanum afslátt af þjónustunni og utanáliggjandi hörðu drifi.
Í kebabkaupum sínum hefur Naglabóndinn stundum lent í kortaveseni eða ekki með nægan pening og alltaf er sama viðkvæðið. “Taktu bara matinn. Þú borgar bara næst vinur. Þú kemur bara á eftir með restina af aurnum.”
Á aðfangadag í fyrra hafði múslimski skraddarinn opið lengur sérstaklega fyrir Naglann sem hafði seinkað á leiðinni að sækja jóladressið.
Slátrarinn sem selur Naglanum dauðar skepnur á disk er flóttamaður frá Írak og gefur Naglanum alltaf faðmlag. Spyr um hagi og segir fræðandi sögur frá lífi sínu í Írak.
Það er alveg rétt. Múslimar eru ógeðslegt, dónalegt og hrokafullt fólk og rökrétt að setja nærveru þeirra fyrir sig þegar flutt til annarra landa.
Það á hiklaust að takmarka ferðafrelsi þeirra og merkja til aðgreiningar frá okkur alsaklausa aríska yfirburðastofni sem aldrei hefur framið neinn glæp.
Og mikilvægt að alhæfa verk ISIS manna yfir á miljarð.
Alls, alls ekki hafa þetta fólk nálægt sér í stigagangi í Reykjavík, og mannúðlegast að smala þeim í rútu í skjóli nætur með lögregluvaldi og vísa úr landi. Það er rétti jólaandinn.
Með því að hafa múslima hvergi nærri sér þá kynnumst við aldrei þeirra gildum, náungakærleik, þjónustulund og vinalegu viðmóti og getum þá haldið áfram að ala á hræðslu, fáfræði og fordómum.
Sorgmæddur og skilningssljór Nagli stimplar sig út.