Nei eða já. Af eða á.

 Þessi pistill birtist í eðalritinu Kjarnanum fyrir skömmu.

 

Eldhúsið er eins og blóðugur vígvöllur. Kökubakkinn sem áður skartaði leifum úr matarboði helgarinnar stendur nú allsnakinn og strípaður. Þú háðir hetjulega baráttu við hugsanirnar, en líkt og Gunnar Nelson stóð sykurpúkinn uppi ósigraður, á meðan allar góðar ætlanir um að valhoppa á beinu brautina sleikja nú sárin.

Þú liggur með liðverki, slen, matarþynnku og sektarkennd sem tætir upp sjálfsmyndina. Sinnið fyllist vonleysi og frústrasjón, þunglyndi og depurð. Slíkum neikvæðum tilfinningum fylgir orkuleysi og órökréttar ákvarðanir.

“Dagurinn er hvort sem er ónýtur eftir þessar kökusneiðar, svo ég get allt eins haldið áfram byrjað aftur á morgun á beinu brautinni.”

Slík ákvörðun er lýsandi fyrir ‘allt-eða-ekkert’ hugsunina sem er ein af hugsanavillum sem hertekur okkur sárasaklausan pöpulinn þar sem lífið er flokkað í tvær kategoríur.

Vinstri – hægri. ESB – Ekki ESB. Samfylking eða Sjallar. Árni Pje eða Bjarni Bje.

Nei eða já, af eða á var sungið forðum daga.

Í nútímasamfélagi þar sem áreitin dynja á okkur er gott að geta tekið skjótar svart-hvítar ákvarðanir með engu gráu svæði.

En þegar kemur að heilsulífinu er slíkur hugsunarháttur beinlínis skaðlegur.

 

“Annað hvort er ég í mæjónesunni, eða ég hangi á kálblaðinu.”

“Ef ég hef ekki 90 mínútur til að æfa í dag þá sleppi ég því alfarið.”

“Annað hvort er ég heima með fjarstýringuna eða ég æfi sjö sinnum í viku. “

Af eða á. Svart eða hvítt. Enginn diplómatískur millivegur.

Rannsóknir hafa sýnt að slíkur hugsunarháttur er ríkjandi hjá þeim sem bæta á sig aftur eftir þyngdartap.

Slíkum hugsunum fylgja oft boð og bönn, refsingar og reglur sem eru eins og útsendari Pútíns í Úkraínu, tilbúinn í vopnuð átök við heilsumelinn og stráfellir allar tilraunir til að vera ræktaði gaurinn.

 

Afkvæmi Satans

 

Miðlarnir fylla okkur af hugmyndum á hverjum degi að eitthvað matvæli sé afkvæmi Satans og beri að forðast eins og pláguna og í kjölfarið er matur flokkaður annaðhvort sem af hinu illa eða af hinu góða.

Þér skuluð algjört fráhald dýrka frá öllu sem gleður tungubroddinn. Kartöflur eru rót offituvanda heimsins. Brauð eru verkfæri djöfulsins, kolvetni út í hafsauga, mjólkurvörur mega ekki koma í radíus, bananar eru fitandi, gulrætur of sykurmiklar, hnetusmjör of orkuríkt.

Guð hjálpi þér barn!

Í desperasjón að ná af sér kílóunum tekur sárasaklaus pöpullinn upp þessar Biblíureglur og eins og hraðpóstur frá DHL kemur upp vanþurftartilfinning. Þú ert sviptur heimsins gæðum, langanir í sveittmeti garga í hausnum og klámfengin þráhyggja um allt sem þú elskar undir tönn dansar um hjarnann. Þegar þú berst við að hugsa ekki um pizzu, eru sveittar Dómínós slæsur það eina sem kemst að í gráa efninu,

Ekki hugsa um bleikan ísbjörn, og ég garantera að ísbjörn í bleikum Henson galla er valhoppandi niður Austurstrætið akkúrat núna.

 

 

Hr. Fokkittskíttmeðþað mætir í partýið

 En þú hefur staðið þína pligt á vaktinni og meinað hverri sveittri slæsunni um inngang eins og samanrekinn dyravörður á Ingólfskaffi.

En svo kemur háli ísinn og banvænn Mólótóff kokteill.

Þú ert þreyttur og pirraður eftir langan dag í vinnunni. Siggi í bókhaldinu rak á eftir reikningunum meðan gelgjudóttirin var á hinni línunni gargandi yfir óréttlæti heimsins að fá ekki lánaðan bílinn og í óðagotinu helltirðu kaffi yfir samningana.

Helv… súkkulaðið sem er bannað í kúrnum þínum liggur í lostafullum stellingum í hausnum.

“Ég á skilið feitan mola núna, fj…hafi það” og Herra Fokkittskíttmeðþað mætir á svæðið. Samningaviðræðurnar, réttlætingarnar, og sáttasamningarni í hausnum myndu leysa alla konflikta á Krímskaganum og þú ræðst á sárasaklaust Konsúmstykkið í bökunarskápnum,

Brotaviljinn er einbeittur. Þú forðast að hugsa um eftirleikinn af þyngdaraukningu, sektarkennd og niðurrifi sem þú veist að lúra bakvið næsta horn tilbúin að berja niður sjálfið.

Hvað gera bændur nú? Aftur á hollustuvagninn eftir að hafa sporðrennt fleiri röndum af afkvæmum Nóa?

Nei aldeilis ekki. Þú slátrar restinni af Kjörísboxinu úr frystinum og rekur smiðshöggið með Hómblest og Kókómjólk.

“Fyrst allt er ónýtt verð ég að nýta tækifærið núna og borða allt sem annars er bannað í mataræðinu. Guðirnir einir vita hvenær Konsúmið mun bráðna aftur í munnholinu í fullkominni harmoníu við vanilluísinn.”

Það er merkilegt að slík hryðjuverkahegðun á sér nær eingöngu stað í tengslum við mat.

Við stígum ekki á símann ef við missum hann í gólfið.

 

En við höldum áfram að skemma árangurinn með að hlaða sukkinu upp í vömbinni og fóðrum okkur á hrossataði um að líkaminn hætti að ferla kaloríur eftir ákveðinn tíma.

 

En Adam er ekki lengi í Paradís sjálfsblekkingarinnar, því í takt við Newton félaga vors og blóma, kemur sektarkenndin í öllu sínu fínasta pússi og rífur þig niður í undirheimana. Ég er aumingi, get ekki haldið út megrun í einn dag. Mun aldrei grennast. Verð alltaf þessi “þybbni.”

Sjálfið er barið til óbóta og sturtað ofan í postulínið með dúnmjúkum Lambi pappír.

Svo hefst hrunadansinn að nýju, með boðum og bönnum, reglum og refsingum um hvað “má” og hvað “má ekki”, ólin þrengd í innsta gat, pússað af meinlætalífinu þar til Siggi í bókhaldinu byrjar aftur að kvabba og dóttirin er ennþá á gelgjunni.

 

Hið bannaða rennur niður ginið með tilheyandi upplifun á stjórnleysi, og í kjölfarið er refsivöndurinn mundaður og sjálfsmyndin sett í bílapressu í Sorpu.

 

Vítahringurinn rúllar og rúllar eins og lukkuhjól í Tívolí.

 

Heiðarlegar tilraunir í heilsulífinu eru truflaðar af reglulegu mæjónesubaði sem færir með sér þyngdaraukningu, vökvasöfnun, óánægju í sinninu og niðurbrot á sálinni.

Það dregur úr gleðinni til að halda áfram, og sjálfstraustið og sjálfsöryggið í verkefninu sulla ofan í niðurfallinu.

 

“Mér mun aldrei takast að verða þessi hressi, fitt og flotti. Ég er viljalaust verkfæri sykurpúkans.”

 

 

Lausnamiðuð hugsun er vegurinn til árangurs

Það þarf að uppræta þetta mynstur með að fara strax í lausnamiðaðan hugsunarhátt eftir lítið fall og nota það sem lærdómsferli. Með því að skoða hvaða hugsanir þú notaðir til að gefa út leyfisbréf til að gúffa öllu sem tönn á festi geturðu verið tilbúinn með mótrök og breytt þínu innra samtali.

Hvar liggja mínir veikleikar? Hvenær er ég líklegur til að marinera mig í sykurlegi. Þegar ég er þreyttur, pirraður og frústreraður. Þá þarf ég að vera á sérstöku varðbergi gagnvart slíkum hugsunum í þessum aðstæðum.

Boð og bönn í mataræði eiga ekki heima í heilsusamlegum lífsstíl.  Það skapar neikvætt samband við mataræðið og sendir af stað holskeflu hegðunar og hugsana sem fremur hryðjuverk á árangrinum og letur okkur til að valhoppa á heilsubrautinni.