Háspenna Lífshætta

Alltof margir mæta á æfingu með egóið uppi á háalofti bísperrtir eins og páfugl í makaleit … “nú skal sko taka á því og refsa stálinu sem aldrei fyrr.”
Svo er hamast og hnoðast á járninu og því böðlað upp hroðvirknislega með hraða sem gæti klofið atóm.
Vogaraflið notað til að koma lóðunum upp, á niðurleiðinni eru vöðvaþræðirnir slakir á kantinum með vindil og koníak því þyngdaraflið sér um verkefnið.

Tempó er eitthvað sem á að heima í tónmennt, með þríhyrningshornið glymjandi í G-moll.

Hver er að vinna þegar þú lyftir lóðum? Vöðvinn eða liðamótin?
Ertu einfaldlega að færa lóðið frá A til B?

Eða ertu að nota vöðvann til að koma járninu milli tveggja fjarlægðapunkta?

Ef þú vilt byggja vöðva utan á grindina og móta skrokkinn með járnrífingunum er það hámarks spenna á vinnandi vöðvann sem skiptir meginmáli.
Spenna er nefnilega það tungumál sem vöðvarnir tala og skilja en ekki endilega númerin á lóðunum.
Þú ert ekki að keppa í aflraunum.

Háspenna Lífshætta sagði Síðan Skein sól.

Jú jú þyngd er ein leið til að auka spennu en alltof margir missa sig í að setja persó í rífingunum.
En það þarf jú að sýna náunganum hvar Davíð fjárfestir í ölkassa og lyftingaformið situr á hakanum af því spírurnar ráða ekki almennilega við þyngdina.

Þó þú sért að taka á því af öllu afli með grettum og óhljóðum þýðir það ekki endilega árangur.
Æfðu gáfulega frekar en að djöflast í gegnum settið bara til að klára.
Finndu samdráttinn og spennuna í vöðvanum sem er að vinna og notaðu allan hreyfiferil hans.
Settu kraft í pósitífuna (upp) en stjórnaðu negatífunni (niður).
Upp á einni sekúndu, niður á tveim til þrem sekúndum.
Ef þú vilt gráta pínulítið stjórnaðu negatífunni á fjórum til fimm sekúndum.

Haltu settinu á hreyfingu en ekki gera eins og þorri ræktarrotta sem stoppa í eina til tvær sekúndur milli endurtekninga og leyfa þannig vöðvanum að verða sultuslakir í miðju setti.

Haltu spennunni í gegnum allt settið án þess að stoppa, hvorki uppi né niðri.

Skildu egóið eftir með sjampóinu í búningsklefanum á næstu æfingu, léttari þyngdir geta vegið eins og tonn þegar þú ert virkilega að einblína á að spenna vöðvann gegn mótstöðunni og láta hvern míkrómetra af endurtekningunni telja.

Jú það er vont og tekur meira í, en halló!! er það ekki tilgangurinn með reisunni í musterið?
Þetta er ekki bingó í Vinabæ.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s