Planheldni er lykillinn að árangri

Hversu margir tæta hárið ofan í skallablett af örvæntingu og skilja ekkert í af hverju þeir ná ekki árangri með líkamann sinn?

Þegar kemur að árangri er tvennt sem ber höfuð, herðar, hné, og tær yfir allt annað.
Þú þarft að hafa markmið og þú þarft að hafa plan. Þetta tvennt lafir á sömu spýtunni og heldur þéttingsfast í höndina á væntingunum.
Hvert stefnirðu? Hvaða orkukerfi líkamans ætlarðu að virkja?
Ætlarðu að byggja upp vöðva eða missa fitu. Ekki hvoru tveggja á sama tíma, það er ávísun á frústrasjón og svekkelsi. Ekki búast við bullandi bætingum í fitutapi, né gubbandi smjörleka í uppbyggingu.

Planið þarf að passa við markmiðið þitt, markmiðið þarf að passa við planið og væntingarnar þurfa að passa við markmiðið.
Æfingar og mataræði eru ekki “ein stærð hentar öllum.”
Planið þarf að vera einstaklingsmiðað og passa inn í lífsstílinn þinn. Annars ferðu með Hlemmur hraðferð beinustu leið til uppgjafar.

Misræmi í planheldni, markmiðum og væntingum er oftar en ekki ástæðan fyrir að liðið rembist eins og rjúpan ár eftir ár án þess að sjá tangur né tetur af árangri.

Alltof margir hafa ekkert plan, hvorki í mataræði né æfingum.
Þeir ráfa stefnulaust um tækjasalinn eins og ölvaður unglingur á skólaballi.
Af handahófi grýta þeir sér í það tæki sem augað nemur og hamra út klassískar tólf endurtekningar í þrjú sett.

Að því loknu heldur villuráfið áfram í næsta tæki, yfirleitt næsta við hliðina.
“Þau hljóta að vera hlið við hlið af ástæðu.”
Í mataræðinu er “borðað hollt” en engin yfirsýn yfir kaloríur, grömm, kolvetni, fitu sem renna ofan í trýnið og klóra sér svo í skallanum yfir að lýsið haggist ekki, styrkurinn stendur í stað og vöðvar eru eitthvað sem finnst í kjötborði Nóatúns.
Enginn strúktúr, engin stefna, engin yfirsýn…. verra en umræður á Alþingi.

Svo er það flokkurinn sem er með plan en fylgir því eftir “smag og behag”

Þeir gera meira eða minna en planið segir til um.
Þetta er ekki grunnskólastærðfræði. Hér á ekki að draga frá eða leggja við.
Plan er sett upp í samhengi, það er ekki handahófskennt samansafn af æfingum, settum, endurtekningum og hvíld. Uppsetningin hefur tilgang fyrir það markmið sem lagt er upp með.

“Mér finnst ég ekki svitna nóg á þessu plani, ég bæti bara við nokkrum hlaupaæfingum á viku, eða milli setta… já eða eftir æfinguna.”

Ef þú bætir við þolæfingum til að flýta fyrir smjörleka, eða hendir inn fleiri járnrífingum “til að kjöta hraðar” ertu ekki lengur að fylgja planinu.
Þú hunsar þar með hvíldina í planinu, sem er tíminn sem þú stækkar og styrkist.
Ef þú ert að plokka smjör ertu væntanlega í neikvæðu orkujafnvægi sem þýðir að líkaminn ræður ekki við of mikið heildarmagn æfinga.
Hann verður miður sín og hefnir sín með að ganga á vöðvaforðann ef þú slummar of miklu aukalega á kantinum ofan á æfingakerfið.

Svo er hin hliðin á tíkallinum.
“Ohhh froskahopp… ég sleppi þeim bara”
“Ég nenni ekki þessu cardíói, miklu skemmtilegra að lyfta. Ég geri það bara”
Ef þú sleppir þolæfingum ertu heldur ekki að fylgja planinu til að búa til þá hitaeiningaþurrð sem þarf í tálgun af skottinu.

Í mataræði sleikirðu þig á rimina og borðar minna en planið segir til um, það hefur jú verið prédikað um þessar ræfilslegu tólfhundruð og það hlýtur að vera lykillinn að eilífri hamingju í horuðum skrokki.
Hvort sem þú vilt byggja upp vöðva eða missa spek er mikilvægt að fylgja plani sem styður við það markmið.

Sömuleiðis er það ávísun á glötun að fylgja plani eins og munkaklerkur mánudag til föstudags, en breytast þá í tvífætta eiturefnamiðstöð fram á sunnudagskvöld.

Tveir dagar í hvítvínsmarineringu og kokteilsósubaði þurrka auðveldlega út fimm góða.

Svo komum við að lúxusmelunum sem veltast um í þægindakúlunni pakkaðir inn í bómul á æfingu.

Ekki gretta, stuna eða svitadropi í radíus og hárgreiðslan haggast ekki.
Hér er fréttabréf fyrir ykkur: Ákefð er ekki inni í planinu nema að ákveðnu leyti.
Ákefð er eitthvað sem þú kemur með á æfingu og gefur allt í botn.
Þú þarft að venjast því að líða óþægilega í smástund viljirðu að árangurinn skili sér.

Síðast en ekki síst er kategorían sem gefur planinu ekki nægan tíma.
“Ohhh, búin að rembast og hamast í þrjár vikur og ekkert gerist…enn eitt helv…planið sem virkar ekki.“ Svo er skælt söltum tárum yfir óréttlæti heimsins.

Það tekur líkamann nokkrar vikur að bregaðst við nýju æfingaáreiti og breyttum matarvenjum og í guðanna bænum ekki fara í bullandi mínus strax á viku þrjú.

Væntingarnar þurfa að vera í takt við veruleikann.
Líkaminn er að taka litlum breytingum dag frá degi og það eru þessar uppsöfnuðu breytingar sem þú sérð eftir tvo til þrjá mánuði.
Það tók þig ekki örfáar vikur að bæta á þig aukakílóunum og því þarf engan Stephen Hawking til að reikna út að þau hverfa ekki á einum ársfjórðungi magískt eins og í þvottaefnisauglýsingu.

One thought on “Planheldni er lykillinn að árangri

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s