Hversu margir tæta hárið ofan í skallablett af örvæntingu og skilja ekkert í af hverju þeir ná ekki árangri með líkamann sinn?
Þú þarft að hafa markmið og þú þarft að hafa plan. Þetta tvennt lafir á sömu spýtunni og heldur þéttingsfast í höndina á væntingunum.
Æfingar og mataræði eru ekki “ein stærð hentar öllum.”
Misræmi í planheldni, markmiðum og væntingum er oftar en ekki ástæðan fyrir að liðið rembist eins og rjúpan ár eftir ár án þess að sjá tangur né tetur af árangri.
Alltof margir hafa ekkert plan, hvorki í mataræði né æfingum.
Þeir ráfa stefnulaust um tækjasalinn eins og ölvaður unglingur á skólaballi.
Af handahófi grýta þeir sér í það tæki sem augað nemur og hamra út klassískar tólf endurtekningar í þrjú sett.
Enginn strúktúr, engin stefna, engin yfirsýn…. verra en umræður á Alþingi.
Svo er það flokkurinn sem er með plan en fylgir því eftir “smag og behag”
Þeir gera meira eða minna en planið segir til um.
Þetta er ekki grunnskólastærðfræði. Hér á ekki að draga frá eða leggja við.
Plan er sett upp í samhengi, það er ekki handahófskennt samansafn af æfingum, settum, endurtekningum og hvíld. Uppsetningin hefur tilgang fyrir það markmið sem lagt er upp með.
“Mér finnst ég ekki svitna nóg á þessu plani, ég bæti bara við nokkrum hlaupaæfingum á viku, eða milli setta… já eða eftir æfinguna.”
Þú hunsar þar með hvíldina í planinu, sem er tíminn sem þú stækkar og styrkist.
Ef þú ert að plokka smjör ertu væntanlega í neikvæðu orkujafnvægi sem þýðir að líkaminn ræður ekki við of mikið heildarmagn æfinga.
Hann verður miður sín og hefnir sín með að ganga á vöðvaforðann ef þú slummar of miklu aukalega á kantinum ofan á æfingakerfið.
Svo er hin hliðin á tíkallinum.
“Ohhh froskahopp… ég sleppi þeim bara”
“Ég nenni ekki þessu cardíói, miklu skemmtilegra að lyfta. Ég geri það bara”
Ef þú sleppir þolæfingum ertu heldur ekki að fylgja planinu til að búa til þá hitaeiningaþurrð sem þarf í tálgun af skottinu.
Í mataræði sleikirðu þig á rimina og borðar minna en planið segir til um, það hefur jú verið prédikað um þessar ræfilslegu tólfhundruð og það hlýtur að vera lykillinn að eilífri hamingju í horuðum skrokki.
Hvort sem þú vilt byggja upp vöðva eða missa spek er mikilvægt að fylgja plani sem styður við það markmið.
Sömuleiðis er það ávísun á glötun að fylgja plani eins og munkaklerkur mánudag til föstudags, en breytast þá í tvífætta eiturefnamiðstöð fram á sunnudagskvöld.
Svo komum við að lúxusmelunum sem veltast um í þægindakúlunni pakkaðir inn í bómul á æfingu.
Síðast en ekki síst er kategorían sem gefur planinu ekki nægan tíma.
“Ohhh, búin að rembast og hamast í þrjár vikur og ekkert gerist…enn eitt helv…planið sem virkar ekki.“ Svo er skælt söltum tárum yfir óréttlæti heimsins.
Það tekur líkamann nokkrar vikur að bregaðst við nýju æfingaáreiti og breyttum matarvenjum og í guðanna bænum ekki fara í bullandi mínus strax á viku þrjú.
hkg15
Reblogged this on helgakristing.