Ég á eftir að…
Verð að muna að….
Þarf að….
Þyrfti að…..
Þrífa eldhússkápana.
Strjúka af gólflistunum.
Kaupa hangikjötið.
Strauja línið.
Viðra sængurnar.
Pússa silfrið.
Baka sörurnar
Panta kalkúninn.
Ohhh….jólakortin….. andsk….
To-do listinn er á lengd við símaskrá Indlands.
Stressið heltekur skrokk og sinni.
Þú hlammar þér í sófann í aðgerðarlömun.
Opnar símann. Öppin sem gefa sýnishorn af veruleika náungans í gegnum tvívídd.
Vinkonurnar pósta myndum af bakstursafrekum.
Óaðfinnanlegar Sörur.
Sjö sortir á sunnudegi.
Mannvirki úr piparkökum.
Ein gerði Hallgrímskirkju. Önnur gerði Hörpu. Þriðja skellti í Buckingham Palace
Þú keyptir tilbúið piparkökuhús í Tiger.
Lakkrístopparnir hvítar sorglegar klessur sem festust við bökunarplötuna.
Heimilin hjá vinunum eins og Hús og híbýli séu að .
Jólaþemað þetta árið er New York 1930.
Antík Jólakúlur í skál á sprautulakkaða eldhúsborðinu.
Stofan seríuklædd eins og lendingarbraut á Keflavíkurvelli.
Jólaskrautið þitt er tilviljanakennt samansafn frá mömmu, Kolaportinu og tombólum.
Serían flækt og ein peran ónýt.
Það vantar handlegg á jólasveininn.
Jólakvíðinn hríslast niður hryggjarsúluna.
Hann hvíslar í eyrað á þér: Þú munt aldrei ná þessu öllu
‘Ekki-nógan’ mætir á kantinn og minnir þig á hversu léleg þú ert.
“þú átt eftir að setja upp jólagardínurnar… og það kortér í jól.”
Hvað þér sé að mistakast á mörgum sviðum.
Við setjum okkur kröfur sem fara með himinskautum og ekki fært nema fuglinum fljúgandi að ná þeim.
Jólin eru ekki tími til að vera hlekkjaður við örtrefjaklút og skúringamoppu.
Jólin eru ekki tími til að vera andvaka af áhyggjum af óskrifuðum kortum.
Jólin eru ekki tími til að vera lítill í sér yfir rykugum gluggakistum.
Jólin eru tíminn til að vera með fjölskyldu og vinum.
Drekka glögg. Sötra kakó.
Smjatta Sörur.
Sjoppa óþarfa á jólamarkaði. Fara á skauta. Máta kjóla.
Hylltu myllumerkið #nógugott
Það koma jól.
Hvort sem það er ryk í hornunum.
Sængin óviðruð.
Eldhússkáparnir skipulagt kaos.
Piparkökuhúsið E-efnafylltur fabrikkuskúr.
Það koma alltaf jól. Spurningin er bara hvort við ætlum að njóta þeirra.
Eða leyfa “Ekki-nógunni” að eyðileggja þau enn eitt árið með kvíðahnút og vanlíðan.