Venjan fyrst – útkoman síðan

 

Margir vilja gera hreyfingu að jafn ósjálfráðri venju dagsins og að bursta tanngarðinn eða kemba lýjurnar á hausnum.

Ýmis markmið eru básúnuð á Fési, Tísti og Insta.

“Nú er kallinn kominn í átak og ætlar að missa 20 kg fyrir jól”

“Haustáskorun hafin. Í kjólinn fyrir jólin”

En oftar en ekki er það eins og að draga blóð úr steini með saumnál að búa til nýjar heilsuvenjur.

Vani er hegðun sem þú endurtekur aftur og aftur og aftur.
Sem þýðir að ef þú byrjar aldrei hegðun þá býrðu ekki til vana.

Þyngstu sporin í að æfa eru oftar en ekki sporin sem ferja þig útum útidyrnar.

 

Að drekka pre-workout drykk er dæmi um rútínu fyrir æfingu

Þegar kemur að heilsuhegðun er mikilvægast að byggja fyrst upp rútínu.

Fyrstu mánuðina er mikilvægara missa ekki úr æfingu en að hanga eins og rolla á girðingastaur í að ná markmiðum.

Þegar þú verður gaurinn sem missir ekki af æfingu þá geturðu farið að slefa yfir númerum á stöng, brók, vigt og málbandi

Maður nokkur ákvað að taka heilsuna í gegn og keypti sér kort í ræktina.
Hann fór á hverjum degi en einungis í 5 mínútur í senn.
Hann ákvað að ef hann gæti búið til þá venju að fara í ræktina á hverjum degi þó ekki væri nema í nokkrar mínútur þá væri vaninn kominn.

Eftir nokkrar vikur fór hann að lengja tímann og bæta við flóknari æfingum.
Hann missti 50 kíló með breyttum lífsstíl.

Þegar þú byggir upp venjuna að æfa þá geturðu fundið óteljandi aðferðir til að betrumbæta og ná árangri.

Ef venjan er ekki til staðar og þú ferð í ræktina hipsum haps og þegar hentar og módjóið er í botni, þá falla allar strategíur örendar eins og í Örlygsstaðabardaga.

Venjan fyrst.
Útkoman svo.