Horuð klessukaka

Naglinn fer oft yfir pollinn til Svíaveldis til sjoppunar á fóðrunarvörum í ICA maxi Västra Hämnen í Malmö því sænskurinn aðhyllist töluvert meiri frjálshyggju en fyrrum drottnarar Skánar með mun breiðara vöruúrval af allskonar hollustuvörum og ammerísku stöffi fyrir átvögl.

Á strolli sínu um lendur Málmeyjar eru sætabrauð á hverju strái því “Fika stund” er heilög stund hjá Svíanum en þá er munnholið glatt yfir kökusneið eða öðrum dísætum afurðum.

Þjóðarrétturinn í slíku sætmeti er “kladdkaka” eða klessukaka upp á hið ylhýra og er guðsgjöf til bragðlaukanna, en kaloríubomba mikil þar sem sykur og smjör úsar af disknum. Naglinn er með pervertískan áhuga á að útbúa hollari og horaðri útgáfur af allskonar lekkermeti til að flétta inn í daglegu gleðina og halda þannig púkanum sáttum samtímis að ná markmiðum sínum án sykurþynnku og slens.

Og vessgú… nýjasta hausableytingin skilaði niðurstöðu af horaðri og hollri klessköku sem slær forvera sínum ekkert eftir í bragði og áferð.

Kladdkaka-1

 

 

Klessukaka Naglans

Uppskrift
1 kaka, c.a 8 bitar

2 dl NOW möndlumjöl
3 msk rifinn kókos
4 msk Hershey’s ósætað kakó
1 tsk lyftiduft
klípa salt
2 msk Himnesk hollusta kókosolía
1 msk hunang
3 heil egg
8-10 döðlur

 

NOW almond flour

 

Aðferð:

1. Stilla ofn á 175°C
2. smyrja lausbotna form (18 cm þvermál) með kókosolíu og dreifa rifnum kókos í botninn
3. Blanda öllu þurra stöffinu saman. Blanda döðlum og hunangi saman í matvinnsluvél. Bæta eggjunum útí og blanda aftur.
4. Bræða kókosolíuna í örranum. Hella þurra stöffinu út í eggjahræruna og síðan kókosolíunni. Blanda öllu vel saman.
5. Baka í 10 mínútur. Kakan á að vera klessuð og blaut þegar hún kemur úr ofninum.
6. Kæla í a.m.k 1 klukkustund áður en þessum unaði er graðgað í ginið. Búðu þig undir lengsta klukkutíma í lífinu. Bera fram með horuðum þeyttum rjóma úr undanrennu (gert með Bamix töfrasprota), eða skyri með Better Stevia French Vanilla dropum.

 

Kladdkaka-2

 

* Allt stöffið í þessa dásemd fæst í Nettó