Grænkálflögur….einu sinni smakkað þú getur ekki hætt

Naglinn sá uppskrift að grænkálsflögum fyrir lifandis löngu en fannst hún svo óspennandi að hún fékk aldrei séns hjá svartholinu. En eftir að allir og amma þeirra lofsungu þetta framandi kál í flögumynd var ákveðið að draga í land með fordómana.

Grænkál heitir “kale” eða “borecole” á útlenskunni og er í Brassica oleracea familíunni ásamt brokkolí, blómkáli og rósakáli. Það er sprengfullt af beta carotene, K-vítamíni, C-vítamíni, luteini og kalki og eins og systirin brokkolí inniheldur efni sem talin eru verndandi gegn krabbameini. Svo það er heldur betur rík ástæða til að jarða fordómana í næsta kirkjugarði.

kale

Jeraðsegjaykkurþað….þessar lufsur eru eins og Pringles… ekki séns að hætta eftir eina. Og svo einfalt og fljótlegt að hörðustu eldhúsaumingjar ráða við verkefnið.

Innihald:

1 stilkur af grænkáli
1 tsk ólífuolía eða PAM spray
sjávarsalt
annað krydd eftir smekk (paprikuduft, parmesan, kúmín….. hvað sem kitlar pinnann)

Aðferð:

Hita ofn í 200°
Klæða ofnplötu eða eldfast mót með bökunarpappír
Þvo kálið og þurrka því svo vel á rassinum
Skera blöðin af stilknum og rífa þau í munnbitastærð

IMG_1893

Dreifa úr þeim á bökunarplötunni, spreyja með PAM eða drissla með ólífuolíu… allt eftir smag og behag. Ef notuð er olía getur verið ágætt að setja flögurnar í poka með olíu og smá vatni og hrista saman.

Sáldra salti (og öðru kryddi) yfir
Inn í ofn í 10-12 mínútur og snúa einu sinni til tvisvar á meðan þær bakast til að þær verði krispí á öllum köntum.

Grænkál - tilbúið

Grænkál – tilbúið

Algjör öööönaður með hakkgrýtu, blómkálsmússu, kalkún, fiski eða bara kvöldsnakk eitt og sér yfir imbanum.

IMG_1899