Naglinn þvælist útum allar koppagrundir veraldar með sinn króníska ferðanjálg. Eins og sönnum æfingamel sæmir kemur upp ofbeldishneigð og ólympískur pirringur ef skottið er ekki viðrað í hamagangi.
Fyrir ferðalög er því gúgglað, rannsakað, kannað og skoðað hvar er næsta járnrífingastöð þar sem hreyfingapirringurinn fær útrás.
Hinir innfæddu verða þó oft kindarlegir og glápa eins og gömul Lux- handsápa þegar snjakahvít, ljóshærð, meðalhá kvenkyns tútta mætir inn í karlaveldi lóðanna vopnuð ströppum og rífur í stálið með tilheyrandi grettum og óhljóðum.
Því flest musteri líkamans á framandi slóðum eiga sameiginlegt að áþreifanlegur hörgull er á kvenpeningnum í járnrífingum, því nær undantekningalaust má sjá þær slefandi á þrekstiganum yfir Cosmopolitan eða labbandi á brettinu með dauðahaldi á handföngunum.
Sjáist glitta í estrogen er það til að lufsast í innan/utan-læris-glennu (tímasóunar) tækjunum eða til að “vinna á hliðarspikinu” með að rykkja lóðum upp og niður með síðunum.
Auðvitað er þetta alhæfing og eingöngu reynsla Naglans, en eftir að hafa fengið sitt járnrífingar-uppeldi í íslenskum líkamsræktarstöðvum þar sem kynin deila jafnt með sér lóðarekkanum er það oft sorglegt að sjá hversu hræddar hinar etnískari eru við stálið.
Naglinn fyllist þjóðarstolti yfir hversu öflugar íslenskar skonsur eru innan um lóðin í samanburði við annarra þjóða kynsystur.
Það er nóg að líta í kringum sig í ræktarsölum Klakans og sjá allan þann fjölda af Meðal-Jónum og Gunnum að taka á því af sama offorsi eins og tapparnir. Það er enginn sem starir, hváir eða spáir þó við öskrum, grettum, rymjum og bölvum í bullandi átökum við stálið enda þykir það “partur af prógrammet”.
Og hvað með allar þær fjölmörgu greinar sem skarta hverri valkyrjunni á fætur annarri: CrossFit, Sterkasta kona Íslands, Sunnumótið, frjálsar íþróttir, fitness, þríþraut og så videre….
Ísland! Sterkan kvenlegg hefur þú alið.
Koma svo stelpur!!!