Framheilalömun

Þú fórst aaaalltof of seint að sofa í gærkvöldi
Þú þreifst ekki íbúðina um helgina eins og planið var.
Þú borðaðir of margar pizzasneiðar í kvöldmat.
Þú slepptir badminton með stelpunum á miðvikudag.
Misstir kontrólið í Namminlandi um helgina og slátraðir kílóavís.
Misstir síðan kúlið og snappaðir á börnin yfir kvöldverðinum.
Þú svafst yfir þig á sunnudegi og misstir af bumbubolta með strákunum
“Ég er ömurlegur”
“Gráðugt svín”
“Mistekst allt sem ég geri.”
“Ég er lúser beibí.”
“Hef enga stjórn á skapinu.”
“Er vanhæft foreldri”
“Get aldrei staðið við markmiðin mín.”
Með þessa blammerandi orðræðu í hausnum nærirðu systurnar skömm og sektarkennd.
Skömm losar út streituhormón. Streituhormón lama framheilann.
Þannig að við getum ekki beitt rökhugsun og dregið lærdóm af hegðuninni.
Sektarkennd byrgir þér sýn hvernig þú getur gert betur næst.
Skömm segir þér að þú sért mistökin.
En við GERUM mistök.
Við erum ekki mistök.
Þú ert ekki hegðunin þín.
Ef þú ert að mölbrjóta sjálfið í öreindir geturðu ekki horft á atvikið með hlutlausum augum.
Sósaður í skömm og sektarkennd geturðu ekki eflt sjálfstraustið og trúna á sjálfan þig í að breyta mynstrinu þínu.
Því þú ert framheilaskaðaður manstu…. Rökhyggjan er í fríi á Mallorca með Gæja.
Með því að breyta orðræðu úr ljótum merkimiðum yfir í að hlutlaust mat, taka ábyrgð á afleiðingum, og velta upp hvaða viðbrögð væru æskilegri drepurðu niður gamla vanann sem er að næra skömm og sektarkennd.
Þannig tekurðu ábyrgð á eigin hegðun og lærir, án þess að sturta sjálfstraustinu aftur og aftur í Gustavsbergið.