Hvað jafnast á við ilminn af nýbökuðum bollum í morgunsárið. Það er hefð hjá okkur hjónum um helgar að hlamma okkur niður eftir járnrífingar og slafra nýbökuðum bollum í hungrað ginið.
Á slíkri stund er enginn nenna né vilji til að hefa og hnoða og bíða og vesenast. Hlutirnir þurfa að gerast mjög hratt enda mallinn svangur og vöðvarnir hungraðir eftir næringu til að hefja viðgerðarferli og prótínmyndun.
Þá er nú gott að luma á einni eldsnöggri, einfaldri og ó svo dásamlegri uppskrift að unaðslegum brauðbollum. Á einu augabragði eru þær klárar úr ofni, komnar með gómsætt álegg, flatmagandi á disk eða jafnvel horfnar upp í munn og ofan í maga.
Uppskrift
3 dl heilhveiti spelt
2 dl haframjöl
1/2 dl Himnesk hollusta kókosmjöl
3 tsk lyftiduft
1 tsk sjávarsalt
2 dl Isola sykurlaus möndlumjólk
2 dl soðið vatn
*út í deigið má síðan bæta hverju sem hugurinn girnist. Það má gera sætabrauð eða matarbrauð. Allskyns kryddum s.s. kanil, negul, kardimommu,hvítlauk, rósmarín, pizzakryddi, parmesan, Naturata næringargeri.
Bæta við stöppuðum banana, döðlum, hnetusmjöri (t.d Monki), söxuðum hnetum, rúsínum, kakónibbum eða fræjum.
Rifnum gulrótum eða zucchini, tómatpúrru, Allos smyrju eða pestó.

Næringarger
Aðferð:
- stilla ofn á 190°C
- hræra saman öllu stöffinu í stóra skál.
- móta litlar bollur með blautum höndum og raða á bökunarplötu
- baka í 25-30 mínútur og málið er dautt
- Færslan er unnin í samstarfi við Icepharma.