Geislavirkur Nagli

Naglinn notar ekki naglalakk né hársprey, ber á sig kókosolíu eftir sturtu.

Naglinn notar einungis sjampó, þvottaefni, sturtugel og svitalyktareyði án ilmefna, litarefna og parabena.

Naglinn eldar nánast allan sinn mat frá grunni úr ferskum óunnum hráefnum (kjöt, grænmeti, gróft korn og ávexti).

Naglinn drekkur aldrei áfengi, reykir ekki, tekur Omega-3, fjölvítamín, C-vítamín, D-vítamín á hverjum degi.

En stundum á Naglinn ekki kókosolíu og stelst þá í gamla boddílósjonið sem er stútfullt af kemískum efnum.

Stundum er rándýra Neutral þvottaefnið búið og þá eru spjarirnar þvegnar með útúrlitaða og gerviilmandi Ariel.

Naglinn reynir að nota frekar Stevia sætuefni en missir ekki svefn þó Splenda sé bara í boði.

Naglinn tyggur líka (mikið) aspartame húðað tyggjó

Naglinn notar gsm-síma, vinnur við tölvu liðlangan daginn, örbylgjar matinn sinn og notar flugvélar í nær hverjum mánuði og því geisluð sundur og saman.

Naglinn gleymir stundum (lesist: mjög oft) að skola grænmeti og ávexti fyrir átu, og aðhyllist mjög teygjanlega 5 sekúndna reglu ef matur dettur á gólfið.

Suma daga gleymir Naglinn að taka vítamínin sín.

Nestisbox og vatnsbrúsar Naglans eru ekki öll BPA-frí.

Naglinn drekkur Kók zero og aðra sykurlausa gosdrykki.

Eftir lyftingar slafrar Naglinn haug af einföldum sykri úr öreindaunnum fabrikkuvörum.

Naglinn notar líka hóflegt magn af allskonar sykurlausum, kaloríufríum vörum til að gera tilveruna skemmtilegri.

Við getum ekki verið algjörir púrítanar og forðast allt sem hugsanlega, kannski, mögulega getur valdið krabbameini, stífkrampa, lömunarveiki og berklum.

Þá yrði okkur lítið úr verki, og myndum jafnvel ekki einu sinni fara úr húsi.

Ef við analýserum hverja örðu sem fer upp í túlann myndum við eflaust svelta heilu hungri, því það dynur stöðugt á okkur að hitt og þetta úr fæðupýramídanum sé bráðdrepandi.

Hóflegt magn af kaloríufríum vörum eins og Walden Farms, Kelp núðlum Stevia, Splenda munu að öllum líkindum ekki koma þér í gröfina. Þú ert væntanlega ekki að fara að gumsa heilu dollunum yfir hverja einustu máltíð dagsins.

Það er eins og með bláa MogM’s ið, baðkar af því var talið hættulegt sérstaklega ef því var skolað niður með sundlaug af Seven-Up.

Allt er best í hófi.

Það er mikilvægt að vera meðvitaður um heilsulífið og taka réttar ákvarðanir, en við megum samt ekki tapa okkur í smáatriðunum og ofhugsa allt sem við gerum.
Þá búum við oft til vandamál sem voru ekki til staðar til að byrja með, og gleðin er fljót að yfirgefa bygginguna.

Heilsulífið snýst líka um jákvæðni, bjartsýni og hamingjusama tilveru.

One thought on “Geislavirkur Nagli

  1. Pingback: Sjoppað í Sverige. Vol. 2 | ragganagli

Comments are closed