Kinnar Naglans eru tárvotar af svekkelsi og súrheitum.
Eftir sex ár af heilsuskrifum, mörg ár af nöldri, hundruði pistla, miljón ráðleggingar og hvar erum við stödd???
Brakandi fersk samnorræn könnun á mataræði, hreyfingu og holdarfari frá Landlæknisembættinu leiðir í ljós að gjaldþrota þjóð í kreppu er komin í fremstu röð holdugra einstaklinga á norðurhjara veraldar?
Ekki einasta nóg með það heldur slurkum við mest af sykri af Norðurlandabúum.
Jibbí Kóla… og ekki diet Kóla… alltaf þurfum við að vera best og mest og stærst í öllu… en hjálpi mér allar vættir, þetta er ekki vettvangur til afreka.
Þesi þróun er skelfileg, ekki vegna þess að níðþröngar brækur í mínusstærð hanga óseldar á rekkum fatabúða.
Nei, hér er um að ræða svo miklu alvarlegra mál en brókarstærðir og óraunhæfa útlitsstaðla samfélagsins. Hér er um að ræða heilsufar landans.
Lífsstílsskjúkdómar á borð við sykursýki II (áunnin sykursýki), stoðkerfissjúkdómar og hjarta- og æðasjúkdómar eru algengir fylgifiskar yfirþyngdar. Svo ekki sé minnst á gríðarlega kostnað heilbrigðiskerfisins fyrir þessa kvilla.
Áhrif yfirþyngdar á lífsgæði og heilsu einstaklingsins sem og lýðheilsu þarf því ekki að hamra á lyklaborðið.
Það er engin líkamsvirðing fólgin í ásköpuðu heilsuleysi.
En hvað veldur þeirri ömurlegu þróun að mittismál Frónverjans er farið nálgast það sem má sjá spígsporandi um breiðstræti í US of A?
Og það í samfélagi eins og á Íslandi sem státar af nokkrum flottustu líkamsræktarstöðvum á norðurhjaranum, og nánast á hverju götuhorni má finna skankaskekjandi skjól.
Mótsagnirnar eru alls staðar.
Dagleg hreyfing utan veggja musteris hreystinnar er af skornum skammti enda ein bílavæddasta þjóð á norðurhjaranum. Það eru sautján skref út á vídjóleigu, en samt tekur liðið sjálfrennireiðina og parkerar jálknum nánast í anddyrinu: “Æi, það er svo mikið rok.”
Það þykir Baunverjanum súrrealísk hugsun, sem hjólar 10-20 km daglega til þess eins að fara frá A til B.
Og enn sjáum við mótsagnirnar.
Auglýsingum um fitubrennslu(peningaplokks)töflur, átaksnámskeið (óþolandi orð), detox og sýru-basa mataræði (bull) rignir yfir pöpulinn.
Hillur matvöruverslana svigna undan lífrænu, sykurskertu, fitusnauðu, lág-kolvetna spliff donk og gengju.
Af hverju spikfitnar þjóðin þá eins og Hans og Gréta í sykurhöllinni í skóginum?
Jú, Nammilandið á laugardögum gubbar útúr sér vísitölufjölskyldum með einhleypingum og unglingum á kantinum. Skyndibitastaðir, ísbúðir, bakarí maka krókinn með sultu og snúð.
Fitusöfnun er afleiðing þess að troða í vélindað meira en er brennt með daglegu skankaskaki og líkamlegri fúnksjón.
Einfalt ekki satt?
Þó þú smjattir á lífrænu, sykursnauðu jógúrti ræktuðu í Himalaya þá er það magnið af matnum sem skiptir máli og ef þú borðar fleiri hitaeiningar en líkaminn losar út með hreyfingu og daglegri virkni þá fitnarðu….. engin geimvísindi né leyndardómur Agamemnons hér á ferð… só sorrý að slemba þessu grútúldna viskustykki í smettið á þér.
Og það er ekki nóg að bransast í hæfilegum skömmtum frá mánudegi til föstudags og smyrja svo smettið með fröllum og sveittum og úttroðnum nammipoka alla helgina ef markmiðið er að halda vigtinni í skefjum.
Prófaðu að skrifa niður allt sem þú borðar í 2-3 daga og teldu hve margar karólínur renna ofan í svartholið. Talan gæti komið þér á óvart. Ákveddu eina til tvær sveittar máltíðir yfir vikuna sem kitla pinnann….ekki tvo heila daga.
Og enn er vandlifað undir sólinni því horrenglu kropp í snæðinginn getur líka stuðlað að því að smjörið safnast á skottið.
Musteri líkamans gubba nefnilega útúr sér hræðum sem þar eru í frústrasjón að plokka mör en því miður eru óhugnanlegar aðferðir notaðar við það verkefni. Fáfræðin er enn við lýði og sú fornaldarhugsun að rífa kílóin af sér en, to, tre ríður húsum.
Skyndimegrunarkúrar eru helsti óvinur langvarandi lífsstílsbreytinga í heilsuveröldinni og sprottnir af ólympískri óþolinmæði eftir árangri. Þessi klikkaða hugsun að allt eigi að gerast í gær valda því að dramatísk aðgerðaráælun er sett saman til að ná óraunhæfu og brengluðu takmarki. Allt snýst um næstu mælingu meðan hugsunin að tileinka sér heilbrigðar venjur er sett inn í frysti með páskalambinu.
Oftast nær felur þessi áætlun í sér aumingjalegt tutl í mataræði með alltof fáum hitaeiningum,. Dæmi um slíkan grátlegan ófögnuð er fólk með 20-30 kg yfirþyngd hangir á horriminni rennandi niður 1200 kvikindum er Þessu fylgja svo slefandi brennsluæfingar á kostnað lyftinga, enda snýst allt um ÞYNGDARtap (ath! ekki fitutap).
Þessi ömurð leiðir til að þú hendist á jó-jó vagninn með Opruh.
Og hvað er þetta jó-jó? Nei, hér er ekki verið að tala um snúru festa á hringlaga klump.
Það er mynstur af endurteknu fitutapi í kroppkúr og falla aftur í sama gamla farið í mataræði og skrokkurinn jó-jóar milli fitutaps og fitusöfnunar.
Það hefur verið sýnt fram á að þessi vítahringur dregur úr skilvirkni skrokksins til að bræða lýsi og stuðlar að enn meiri fitusöfnun, í hvert skipti sem þú missir kíló með ræfilslegu kroppi rýrna vöðvarnir – þannig að þegar þú bætir á þig aftur er það meiri fita en áður. Samsetning líkamans verður meiri fita og minna af vöðvum þrátt fyrir heiðarlegar og örvæntingarfullar tilraunir til fitutaps.
Þetta er því miður ískaldur veruleiki sem blasir við þeim sem vilja missa fitu á hraða ljóssins.
Heilbrigðar aðferðir fitutaps með réttum hitaeiningafjölda, hóflegum skömmtum í mörgum smáum máltíðum, magrir prótíngjafar, flókin kolvetni, góða fitan, hóflegar brennsluæfingar og svívirðing járnsins byggir upp skilvirkara kerfi til fitutaps.
En það fylgir bögull skammrifi…. þú þarft að sætta sig við hægari árangur en í skyndimaníuklikkuninni.
Þurrkaðu svekkelsið í Kleenexið hið snarasta… árangurinn verður varanlegur og þú stuðlar ekki einungis að lægra kílóameðaltali landans heldur betra heilsufari sem á alltaf að vera forgangsatriðið.