Popplag í G-dúr

Það er algengur misskilningur hjá þeim sem eru að tálga lýsið að nú eigi að “bara að lyfta létt og oft”
Ómanneskjulegur fjöldi af endurtekningum með bleiku lóðin og nanósekúndna hvíld milli setta.

“Ég vil brenna sem mestri fitu á æfingunni.”

“Ég þarf að svitna svo ég finni að ég sé að brenna.”

“Ef mér er flökurt af mæði er ég að spæna upp spikið.”
Púlsinn er keyrður upp í rjáfur og svitnað eins og grís á teini.

Í svoleiðis ástandi ræður enginn við almennilegar þyngdir og því er lufsast með lóð í einnar stafa tölu en það er allt í lagi, því ég er að tæta upp kaloríurnar með öllum þessum svita og hamagangi.

Jafnvel er farið út í þann bransa að hlífa járninu fyrir átökunum og gera eingöngu æfingar með eigin líkamsþyngd.

Þessa firru má rekja til hinna fjölmörgu pistla sem beinast sérstaklega að kvenpeningnum og bera yfirleitt yfirskriftina:
“Viltu tóna þig upp?”
“Tónaðu rassinn.”
“Tónaðu kviðinn,lærin, hendurnar,… tóna, tóna, tóna”

Að “tóna” er orðskrípi sem getur eitt og sér valdið nasablæðingu af pirringi.

Annað hvort ertu að byggja upp vöðva eða þú ert að skafa fituna af vöðvunum.

Hvar er þessi tónun??

Do, re, mí, fa….

Popplag í G-dúr.

Við erum ekki í Skagfirðingakórnum, þar tóna menn fyrir allan peninginn – ekki í ræktinni.

Þó að margar endurtekningar með stuttri hvíld á milli noti margar karólínur til starfans þá er markmiðið með járnrífingum í fitutapsfasa að viðhalda styrk, jafnvel verða sterkari og halda í það kjöt sem við höfum byggt upp en ekki að örva fitutap.

Lyftingar brenna ekki fitunni heldur það sem við gerum í hina 23 tímana.

Lýsisleki á að koma fyrst og fremst í gegnum snæðinginn, hverju og í hve miklu magni við troðum fóðri í skjóðuna.
Til að missa spek þarftu að borða í hitaeiningaþurrð sem þýðir á mannamáli að þú borðar færri hitaeiningar en þú brennir.

Restin af fitutapinu kemur svo úr þolæfingum eins og HIIT, lotuþjálfun og hringþjálfun.

Og hvað viðheldur kjötinu?
Jú nákvæmlega sama og byggir það upp – satanískar þungar lyftingar með endurtekningum á bilinu sex til tíu á miðlungs til hárri ákefð.
Og kvinnur, það á líka við um ykkur og enn meira en tappana því við höfum ekki testósterón búskap í maskínunni sem heldur í kjötið eins og þeir.

 

 

Hækkaðu sársaukaþröskuldinn, snýttu þér og rífðu eins og berserkur.
Viðráðanleg þyngd, fallegt form en þú ert að ströggla með síðustu 1-2 endurtekningarnar.

Hér á að verða ljótur, urra, gelta, gretta sig, tungan út, elsku mamma, miskunn á himnum og allur pakkinn.

Forðastu að tuðrast í mörgum endurtekningum og lufsuþyngdum meðan smjörið er brætt, og snætt er í hitaeiningaþurrð.

Líkaminn reynir alltaf að aðlagast öllum breytingum sem við troðum á hann, þar með talið hitaeiningaþurrð með að aðlaga hormónabúskapinn.
Þegar hitaeiningar eru skornar niður og líkamsfitan hrynur utanaf grindinni verður aukning í katabólískum (niðurbrjótandi) hormónum sem stuðla að tætingu á amínósýrum og anabólísk (uppbyggjandi) hormón minnka samtímis.

Margar endurtekningar í hitaeiningaþurrð eru líkleg til að valda því að kjötið yfirgefur bygginguna eins og Elvis því líkaminn aðlagar sig að færri hitaeiningum með að hægja á öllu kerfinu.

Ímyndaðu þér vöðvana sem Friðþjóf frænda í fermingarveislunni þinni. Hann talar endalaust um sjálfan sig og úðar í sig öllu bakkelsinu svo hinir gestirnir sitja uppi slippir og snauðir.

Líkaminn vill ekki orkufrekan og virkan vef eins og Friðþjóf í partýinu. Vöðvar krefjast of mikils eldsneytis sem nú er af skornum skammti og getan til viðgerða og viðhalds því takmörkuð. Líkaminn losar sig við vöðvana til að hægja enn frekar á kerfinu.
Eins fer heildarmagn álags á æfingunni – sett x endurtekningar – útyfir öll velsæmismörk og líkaminn nær ekki að jafna sig á milli.

Frumvarp til niðurskurðar á rekstrarkostnaði vöðva verður fyrsta mál á dagskrá í Eldhúsdagsumræðum.

Annað sem þungar lyftingar gera fyrir vöðvana er að bæta þéttni þeirra sem gefur þeim fallegra útlit, líka þegar þeir eru ekki í brúkun.

Hættu að gaufast í tuttugu endurtekningum með plastík lóðin.
Lyftu þungt, þungt, þungt og reyndu að viðhalda styrknum, jafnvel bæta í hann þó þú sért að minnka skottið.

Ef þú notar ekki vöðvana þá einfaldlega missirðu þá og þú þarft að gefa líkamanum ástæðu til að halda í vöðvamassann og það gerirðu með þungum lyftingum og fáum endurtekningum.
Því meira kjöt sem við höldum í, því meiri er fitubrennslan hvort sem er í ræktinni eða heima að horfa á Útsvar.
Áfram Bíldudalur!

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s