“Æi ég tek bara brennslu og smá maga í dag.” Þið þekkið þennan frasa. Af því kviðsvæðið er fitusöfnunar svæðið hjá okkur flestum þá veitir það sálarró að liggja á bakinu og þjösna olnbogum í hné 2000 sinnum og helst á hverjum degi.
Því miður þarf að slengja skítugu viskustykkinu í andlitið.
Í fyrsta lagi þarf ekki að æfa kviðinn á hverjum degi, þú myndir væntanlega ekki þjösnast í fótaæfingum á hverjum degi, er það? Af hverju þá kviðinn?
Í öðru lagi er ekki til neitt sem heitir staðbundin fitubrennsla. Kviðæfingar þar til þú gubbar mun ekki skafa mörinn af, það gerist eingöngu í gegnum hollt og gott mataræði.
Í þriðja lagi erum við að nota kviðinn í öllum stóru æfingunum: hnébeygjum, push press, réttstöðulyftu, bekkpressu og så videre.
Að sama skapi eru hinar hefðbundnu Jane Fonda kviðæfingar og maskínur sem þjálfa mallakút hvoru tveggja ofmetnari en lambakjöt.
Hættum að sóa tímanum og gerum frekar svokallaðar miðju (e. core) æfingar sem skila okkur miklu sterkari kvið.
Miðjan samanstendur af mörgum vöðvum (e. rectus, obliques, Transverse abdomnis, psoas, erector spinae) sem styðja við mænu, mjaðmagrind og axlir og liggja upp allan hrygginn.
Þessir vöðvar veita sterkan grunn fyrir allar hreyfingar líkamans, líka í útlimunum því kraftmiklar hreyfingar eiga upphaf sitt í miðju líkamans en ekki í útlimunum einum og sér. Áður en samdráttur getur orðið í útlimum þarf mænan að vera stöðug, og því stöðugri sem miðjan er, því meiri kraftur getur orðið í samdrætti vöðvanna.
Sterkari miðja bætir líkamsstöðuna, ekki einungis í æfingum, heldur einnig í hinu daglegu lífi. Við þurfum nefnilega alltaf að huga að því að hreysti okkar sé ekki einskorðuð við tækjasalinn, hún skiptir ekki síður máli utan hans. Ekki ætlum við að vera aumingjar með hor þegar kemur að burði á börnum og innkaupapokum, er það??
Sterk miðja kemur jafnframt í veg fyrir mjóbaksmeiðsli því veikt mjóbak má í flestum tilfellum rekja til aumrar miðju og/eða rangrar líkamsbeitingar eða líkamsstöðu.
Miðjuæfingar skila mestu þegar hryggurinn virkar eins og ein heild, vöðvar að framan og aftan vinna á sama tíma, og æfingar gerðar sem fara í gegnum fleiri en einn lið, svokallaðar “multi joint movements”.
Miðjuna má þjálfa með hinum ýmsu æfingum t.d plankaæfingar, æfingar á Swissbolta, Bosubolta, með lóðum, ketilbjöllum, bolta eða án nokkurs búnaðar.
Hér eru nokkrar góðar miðjuæfingar: